Ræddu við frönsku lögregluna: Konan enn á spítala

Reykjavik Edition-hótelið.
Reykjavik Edition-hótelið. mbl.is/Ólafur Árdal

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur rætt við lögregluna í Frakklandi vegna málsins sem kom upp á Reykjavik Edition-hótelinu á laugardaginn þegar franskur karlmaður og dóttir hans fundust látin.

Þetta staðfestir Eiríkur Valberg, fulltrúi í rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en vill annars ekkert tjá sig frekar um samskipti lögregluembættanna tveggja.

Rannsókn lögreglunnar á málinu er enn í fullum gangi. Rannsókn á vettvangi stendur enn yfir og verið er að ræða við fólk, bæði frönsku konuna sem er grunuð um að hafa orðið manni sínum og fullorðinni dóttur að bana, og vitni, að sögn Eiríks.

Liggur á sjúkrahúsi

Konan sem er grunuð liggur enn á sjúkrahúsi og er líðan hennar stöðug. Hún er ekki í lífshættu. Spurður nánar um hvort öryggisgæsla sé á sjúkrahúsinu vegna veru hennar þar vill Eiríkur ekkert tjá sig um það.

Lögregluhjól í bílakjallara Reykjavik Edition.
Lögregluhjól í bílakjallara Reykjavik Edition. mbl.is/Ólafur Árdal

Hann vill heldur ekki gefa upp nöfn þeirra sem létust.

„Við ætlum ekki að veita meiri upplýsingar að svo stöddu,” segir Eiríkur.

Franska sendiráðið vill ekki tjá sig

Mbl.is hafði samband við franska sendiráðið á Íslandi sem vildi ekkert tjá sig um málið á þessum tímapunkti og vísaði á íslensku lögregluna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert