Hækkandi raforkuverð á síðustu fimm árum hefur fyrst og fremst bitnað á fyrirtækjum í landinu frekar en heimilum. Nauðsynlegt er að ráðast í frekari orkuöflun og á Alþingi eru frumvörp sem eiga að flýta fyrir virkjanaframkvæmdum.
Þetta segir Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, í samtali við mbl.is að loknum blaðamannafundi í ráðuneytinu þar sem kynnt var skýrsla Raforkueftirlitsins um þróun raforkukostnaðar og áhrif á neytendur.
Í skýrslunni kemur fram að raforkukostnaður heimila hafi hækkað um 11% frá árinu 2020, miðað við fast verðlag. Jóhann Páll bendir þó á að þrátt fyrir þessa hækkun nemi aukningin í útgjöldum heimila með hitaveitu einungis 0,1% af tekjum þeirra, sem einnig hafa aukist á síðustu fimm árum.
„Það er verið að reyna að nálgast hvað þetta raunverulega þýðir fyrir heimilin,“ segir hann.
Raforkukostnaður fyrirtækja hefur hins vegar hækkað mun meira en hjá heimilum. Sé sama aðferðafræði notuð – þ.e.a.s. ef skoðað hversu mikið útgjöld fyrirtækja vegna raforku hafa aukist sem hlutfall af tekjum – kemur í ljós að hækkunin nemur 4% hjá garðyrkjubændum sem rækta agúrkur, 7% hjá tómatabændum og 4% hjá gagnaverum.
Þrátt fyrir að hlutfallsleg áhrif séu þannig sett fram, þá er hækkunin á föstu verðlagi mun meiri.
Sem dæmi má nefna að raforkukostnaður gagnavera hefur hækkað um 54% og flutningsgjald stórnotenda um 36%. Þá hefur raforkukostnaður álvera hækkað um 25% á föstu verðlagi og raforkukostnaður fyrirtækja (2-20 GWh) hefur hækkað um 24% á föstu verðlagi frá árinu 2020.
Er þetta [hækkandi raforkuverð] þá meira vandamál fyrir fyrirtækin en heimilin?
„Já, að mörgu leyti þá er það þannig. Maður hefur áhyggjur af þessu, ekki síst í dreifbýli, og þess vegna erum við með frumvarp inni á þinginu núna sem felur í sér að frá og með 1. júlí næstkomandi þá muni orkureikningurinn lækka um allt að 20% í dreifbýli. Við erum að hækka bæði jöfnunargjald og dreifbýlisframlag. Þá erum við að jafna stöðu fyrirtækja í dreifbýli miðað við þau sem eru í þéttbýli,” segir Jóhann.
Hann segir það vera áhyggjuefni hvað það hafi þurft að hafna mörgum spennandi tækifærum til atvinnuuppbyggingar víða um land á undanförnum árum vegna raforkuskorts.
Til þess að bregðast við orkuskortinum kveðst Jóhann vera með fjögur frumvörp á Alþingi sem lúta meðal annars að einföldun regluverks og meiri skilvirkni í orkumálum.
„Í dag erum við að fara samþykkja frumvarpið mitt sem er til þess fallið að eyða óvissu um Hvammsvirkjun og aðrar mikilvægar framkvæmdir sem fela í sér breytingu á vatnshloti. Það er mjög brýnt,” segir Jóhann.
Enn fremur segir hann að svokallaður „einföldunarbandormur“ liggi fyrir á þinginu sem snýst um að fækka viðkomustöðum og gera Umhverfis- og orkustofnun kleift að sameina afgreiðslu margra leyfa í eitt leyfi. Þær breytingar taka einnig til leyfisveitinga sem heyra ekki undir stofnunina sjálfa.
„Þannig þetta eru mjög róttækar breytingar,” segir hann og bætir við að í sama frumvarpi sé mælt fyrir um forgangsmeðferð stærri virkjanaframkvæmda.
Hann segir að með þessum frumvörpum eigi bið eftir virkjanaframkvæmdum að minnka og þar af leiðandi verði hægt að ráðast í aukna orkuöflun fyrr.