Raforkukostnaður heimila hækkað um 11%

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, á fundinum í …
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, á fundinum í dag. mbl.is/Karítas

Raforkueftirlitið leggur til úrbætur á íslenskum raforkumarkaði vegna mikilla verðhækkana hjá ýmsum aðilum á markaðnum. Raforkukostnaður heimila hefur hækkað á síðustu árum en þó umtalsvert meira hjá fyrirtækjum.

Markmiðið með úrbótunum er að auka gagnsæi, bæta samkeppnishæfni atvinnulífs og tryggja hagkvæmari notkun raforku.

Þetta kom fram á blaðamannafundi Jóhanns Páls Jóhannssonar, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, ásamt raforkueftirlitinu í ráðuneytinu nú fyrir skömmu.

Raforkukostnaður heimila hækkað um 11% á fimm árum

Þann 31. janúar 2025 óskaði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið eftir greinargerð um þróun raforkukostnaðar á Íslandi og áhrifum á neytendur og atvinnulífið. Var það ekki síst vegna háværrar umræðu um þróun raforkuverðs á Íslandi.

Samkvæmt skýrslunni, sem Hanna Björg Konráðsdóttir, sviðsstjóri Raforkueftirlitsins fór yfir, hefur raforkukostnaður heimila hækkað um 11% frá árinu 2020 á föstu verðlagi. 

Athygli vekur að lægsta smásöluverð raforku lækkaði á árunum 2005 - 2020 á föstu verðlagi um 10% og er það rakið til mikillar samkeppni á þeim markaði. Aftur á móti ef einfaldlega er litið til verðlags fyrir hvert ár þá er hækkunin 78%.

Raforkukostnaður fyrirtækja hækkað enn meira

Flutningsgjald stórnotenda hefur hækkað um 36% frá árinu 2020 á föstu verðlagi á sama tíma og raforkukostnaður álvera hefur hækkað um 25% á föstu verðlagi.

Raforkukostnaður fyrirtækja (2-20 GWh) hefur hækkað um 24% á föstu verðlagi frá árinu 2020.

Meðal þess sem lagt er til í skýrslunni er að bæta gagnaöflun og greiningar á raforkuverði, einfalda skýrslugjöf fyrirtækja í greininni og efla eftirlit með raforkunotkun stórnotenda.

Þá er kallað eftir því að hátternisreglur og viðurlög verði skýrari og að upplýsingagjöf um raforkuöryggi verði reglubundin.

Skilvirknigreining á sérleyfisfyrirtækjum

Lagt er til að fram fari sérstök skilvirknigreining á sérleyfisfyrirtækjum sem annast flutning og dreifingu raforku.

Einnig er lagt til aukna eftirfylgni á innleiðingu snjallmæla hjá dreifiveitum en samkvæmt skýrslunni hefur dreifikostnaður heimila hækkað um 14% á föstu verðlagi frá árinu 2020.

Áhersla er lögð á aukna gagnabirtingu til að efla umræðu um þróun raforkukostnaðar og styðja við ákvarðanatöku bæði stjórnvalda og fyrirtækja.

Þá eru lagðar til mögulegar umbætur á raforkulögum sem snúa að því að yfirfara ákvæði raforkulaga og reglugerðar um undanþágur í gjaldskrám dreifiveitna. Þá er einnig lagt til almenna lagaheimild um þróun flutningsgjaldskrár.

Lagt er til að úrbætur verði gerðar á íslenskum raforkumarkaði.
Lagt er til að úrbætur verði gerðar á íslenskum raforkumarkaði. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert