Kenning Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, um að „leki sé á milli orkumarkaða“ fær ekki stoð í nýrri greiningu Raforkueftirlitsins.
Þetta kom fram á blaðamannafundi Jóhanns Páls Jóhannssonar, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, og Raforkueftirlitsins um þróun raforkukostnaðar og áhrif á neytendur.
Í skýrslu eftirlitsins kemur fram að stórnotendur raforku hafi almennt haldið sig innan samningsmarka og engar vísbendingar séu um að raforka sem ætti að nýtast heimilum hafi verið færð til stórnotenda.
Hörður skrifaði grein í Morgunblaðið í desember árið 2023 þar sem hann varaði við því að raforka ætluð heimilum og smærri fyrirtækjum væri að renna til stórnotenda raforku.
Hanna Björg Konráðsdóttir, sviðsstjóri Raforkueftirlitsins, fór yfir skýrslu Raforkueftirlitsins þar sem meðal annars var farið yfir notkun stórnotenda frá árinu 2019 og hvort orkufyrirtæki hefðu fært sölu til annarra hópa.
„Almennt má segja að stórnotendur séu að nýta sína samninga vel og séu innan samningsmarka. Við greininguna komu engar skýrar vísbendingar fram um að tilfærsla milli notendahópa frá almennum markaði til stórnotenda hefði átt sér stað. Þvert á móti bentu niðurstöður til þess að stórnotendur væru að nýta samanlagðar heimildir sínar til samninga um orkukaup innan ramma gildandi laga og reglna. Það má segja því að þessi mýta, eða þessi umræða um tilfærslu milli notendahópa, virðist ekki eiga sér stoð,” sagði Hanna Björg.
Spurður hvort þetta komi sér á óvart segir Jóhann ljóst að stórnotendur séu ekki að taka til sín orku frá heimilum í landinu.
„Það sem kannski er dregið fram í skýrslunni hvað þetta varðar er að það er verið að greina raunverulega raforkunotkun stórnotenda og bera saman við samningsbundið magn. Þannig að þessu leytinu til er það alveg ljóst að stórnotendur eru ekki að soga til sín orku frá heimilum landsins,” segir Jóhann Páll.
„En hitt þarf auðvitað að skoða sérstaklega, hvort að það sé hætta á því að orkufyrirtæki ofselji og geri langtímasamninga við stórnotendur umfram það sem jafnvægið í raforkukerfinu almennt getur staðið undir ef ætlunin er að halda áfram að selja heimilum á viðráðanlegu verði.”
Hann segir aftur á móti áfram vera þörf á raforkulögum sem tryggja forgang heimila og lítilla fyrirtækja ef til orkuskorts kemur. Það sé fyrst og fremst varnagli fyrir heimilin.