„Það er ekki hægt að þessi börn bíði svona“

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, segist skilja mjög vel foreldra í …
Salvör Nordal, umboðsmaður barna, segist skilja mjög vel foreldra í þessari stöðu, þegar það vantar sárlega úrræði hér á landi. Samsett mynd/Colourbox/Kristinn Magnússon

Umboðsmaður barna telur fulla ástæðu til þess að ríkið skoði hvort hægt sé að styðja við foreldra sem kjósa að fara með börn sín til útlanda í fíknimeðferð, á meðan skortur er á úrræðum hér á landi fyrir börn með fjölþættan vanda.

Um sé að ræða einstaklega viðkvæman hóp barna sem geti ekki beðið eftir því að þjónusta við þau verði byggð upp hér á landi.

Í svari mennta- og barnamálaráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is í síðustu viku kom fram að ekki hefði verið skoðaður sá möguleiki að senda börn til útlanda í meðferð og að það stæði heldur ekki til. Áhersla stjórnvalda væri á að hraða uppbyggingu faglegra úrræða fyrir þennan hóp barna hér á landi, sem næst fjölskyldu og annarri þjónustu.

„Ef nýta ætti er­lend meðferðarúr­ræði fyr­ir meðferð á ábyrgð ís­lenskra stjórn­valda þyrfti að horfa til lagaum­hverf­is á Íslandi, alþjóðlegra skuld­bind­inga, fag­legs inntaks meðferðar­inn­ar, rétt­ar­stöðu barna og ábyrgðar ef slíkt úrræði bregst með al­var­leg­um af­leiðing­um fyr­ir barnið,“ sagði jafn­framt í svari ráðuneyt­is­ins.

Á ekki að koma í staðinn

Dæmi eru um að foreldrar hafi farið með börn sín til útlanda í meðferð, og mbl.is hefur rætt við foreldra sem eru að íhuga þann kost. Það hins vegar mjög kostnaðarsamt og ekki á allra færi.

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, segist skilja mjög vel foreldra í þessari stöðu, þegar það vantar sárlega úrræði hér á landi. 

„Þetta á ekki að koma í staðinn, að sjálfsögðu viljum við að það séu byggð upp úrræði hér. Að úrræði séu til staðar á Íslandi og að fólk þurfi ekki að fara til annarra landa,“ segir Salvör í samtali við mbl.is.

„En á meðan staðan er þessi, að það er ekki hægt að veita þessa þjónustu hér, þá er full ástæða fyrir ríkisvaldið að skoða þennan möguleika. Hvort hægt sé að styðja foreldra sem eru með börn í þeim aðstæðum að þau séu tilbúin að fara í meðferð erlendis,“ segir hún en bendir jafnframt á að það sé að öllu leyti flóknara að fara til útlanda í meðferð. Þetta snúist ekki bara um kostnað. 

„Eins og með ýmsa aðra læknisþjónustu þá erum við að senda fólk til útlanda ef það er ekki hægt að veita þjónustuna hér á landi. Hér erum við með einstaklega viðkvæman hóp barna, sem getur ekki beðið. Það er svo afdrifaríkt að þau fái ekki þjónustu þegar þau eru tilbúin að nýta hana og þurfa á henni að halda,“ segir Salvör.

„Það er ekki hægt að þessi börn bíði svona,“ bætir hún við.

Að minnsta kosti 300 þúsund á mánuði í meðferð

Ekki hef­ur verið starf­rækt lang­tímameðferðarúr­ræði fyr­ir drengi hér á landi á veg­um rík­is­ins í rúmt ár, eða frá því Lækj­ar­bakka var lokað vegna myglu í apríl á síðasta ári. Til stend­ur að opna Lækj­ar­bakka á nýj­um stað í Gunn­ars­holti á Rangár­völl­um, en það verður í fyrsta lagi í lok sept­em­ber eða í októ­ber. 

Í dag er því ekk­ert sem gríp­ur drengi sem ljúka hefðbund­inni meðferð og grein­ingu á meðferðar­heim­il­inu Blöndu­hlíð á Vogi og þurfa á fram­haldsmeðferð að halda. Það er því hætt við því að börn­in leiðist fljótt aft­ur út á sömu braut og áður og hafa þeir sem til þekkja varað við því að það kunni að ger­ast.

Í byrj­un júní birt­ist viðtal við móður 16 drengs í þeirri stöðu á mbl.is. Hann var út­skrifaður úr Blöndu­hlíð eft­ir tólf vikna meðferð, þrátt fyr­ir að hafa nokkr­um dög­um áður verið beitt­ur hjarta­hnoði í lög­reglu­bíl vegna of­drykkju. Hann hafði þá dottið í það í helgar­leyfi, líkt og svo oft áður á meðan hann var í meðferð.

Móðirin sagði í sam­tali við mbl.is að dreng­ur­inn glímdi aug­ljós­lega við al­var­leg­an fíkni­vanda og þyrfti meiri aðstoð í lengri tíma.

For­eldr­arn­ir sjá í ekki ann­an kost í stöðunni í dag en að reyna að koma drengn­um í meðferð í út­lönd­um. Móðirin hef­ur verið í sam­bandi við meðferðar­stofn­un í Suður-Afr­íku þar sem ís­lensk börn hafa farið í meðferð. Miðað er við að meðferðin taki um níu mánuði, en mánuður­inn kost­ar um 300 þúsund krón­ur. 

Þau hafa einnig skoðað meðferðar­stofn­un á Spáni en þar kost­ar mánuður­inn um 1,2 millj­ón­ir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert