„Hér er um óvitaskap að ræða. Mér vitanlega eru kynin líffræðilega tvö, karlar og konur. Svo eru til alls konar afbrigði sem hafa alltaf verið, bæði hvað varðar líkamsgerð og hneigðir.“ Þetta segir séra Geir Waage pastor emeritus, spurður um þær breytingar sem boðaðar eru á kynjunum í nýjum handbókardrögum sem Guðrún Karls Helgudóttir biskup kynnti á prestastefnu á dögunum.
Í handbókinni koma fram nýjar áherslur eins og að kvengera guð og tala um öll kyn, auk þess sem óður til Allah er birtur á arabísku í íslenskri sálmabók.
Geir vísar í ritninguna:
„En frá upphafi sköpunar, gjörði Guð þau karl og konu. Fyrir því skal maður yfirgefa föður sinn og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður. Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður.“
Það sem Geir finnst alvarlegast í þessum handbókardrögum er breytingin á þrenningarlærdómnum þar sem honum er breytt frá því sem hann hefur verið frá öndverðu og guð kvengerður.
„Það gengur ekki, því þar er brotið á þrenningarlærdómnum. Prestar hafa lengi sullað með þetta í hreinum óvitaskap. Þeir segja „í nafni Guðs föður sonar og heilags anda“ í stað þess að segja í nafni Guðs, [komma] föður og sonar og heilags anda, því guð er einn og þríeinn. Þegar prestar fara svona með þetta er það til marks um það að þeir gá ekki að sér með þrenningarlærdóminn. Þegar menn eru farnir að skipta föðurnum, skaparanum, út fyrir eitthvað annað þá erum við komin á villuvegu. Þá er verið að kenna villutrú og það hefur mjög slæmar og alvarlegar afleiðingar þegar til lengdar lætur. Ef mönnum finnst eitthvað vanta upp á kvenkynið í hina helgu fjölskyldu þá er María Guðsmóðir þar á sínum stað.“
Geir vísar í breytingu sem gerð var á handbók presta 1981.
„Þar var sú breyting gerð að sonurinn er skilgreindur samur föðurnum sem er trúvilla, en hið rétta er að hann er sömu veru og faðirinn. Svona læðast villurnar inn og menn gæta ekki að sér þegar þeir telja sig vera að bæta hlutina í nafni framfara.“
Hann segist hafa séð hrafl úr handbókardrögunum sem kynnt var á prestastefnunni og honum lítist mjög illa á það sem þar kemur fram.
„Þetta er vildarhyggjan sem veður yfir allt núna. Ég vil hafa þetta svona, burtséð frá því hvað allir aðrir segja. Að menn fari að vild sinni með hlutina. Það er t.d. vildarhyggja sem ræður í fréttaflutningi í heiminum, af því að menn vilja að hlutirnir séu öðruvísi en þeir eru í reyndinni.“
Í framhaldi af umræðunni um mörg kyn bætir Geir við að málfræðilegu kynin séu þrjú, karlkyn, kvenkyn og hvorugkyn.
„Maður er að vísu karlkynsorð en það gildir bæði um konur og karla. Og að breyttu breytanda er hægt að segja að kona sé góður drengur. Hún er drengskaparkona og hann er drengskaparmaður. Það má ekki grauta öllu saman í einhverja vitleysu að vild manna.“
Í nýrri sálmabók er arabískur texti og lof til Allah. Geir var spurður hvað byggi þarna að baki.
„Ég skil það ekki. Mér skilst að það sé eitthvert bænarákall til Allah. Það engin ástæða til að nota arabískt orð um drottin.“
Vinna við nýja Handbók Þjóðkirkjunnar hefur staðið yfir í um þrjú ár. Í ávarpi sínu á prestastefnu segir biskup að handbókarnefnd hafi unnið gríðarlega mikið starf með lýðræðislegum hætti.
„Að baki þessa efnis liggur mikil guðfræðileg vinna auk þess sem nefndin tekur tillit til kröfu nútíma samfélags um að talað sé mál allra kynja í Þjóðkirkjunni, því ég tel ákaflega mikilvægt að þau sem koma til kirkju upplifi að þau séu velkomin og ávörpuð,“ segir í ávarpi biskups á prestastefnu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.