Ferðamenn keyrðu Búa niður og stungu af

Búi heldur úti Hjólvarpinu, hlaðvarpi um hjólareiðar.
Búi heldur úti Hjólvarpinu, hlaðvarpi um hjólareiðar. Ljósmynd/Búi Aðalsteinsson

Bandarísk hjón keyrðu á hjólreiðamann í Reykjavík fyrir rúmri viku og stungu af eftir að hafa logið því að honum að þau ætluðu að leita að bílastæði. Í samtali við mbl.is segir maðurinn atvikið líkjast senu úr kvikmynd. 

„Ég var að hjóla niður Ægisgötuna, bara beint áfram, þegar það mætir mér stór jeppi,“ segir Búi Aðalsteinsson hjólreiðamaðurinn og þáttastjórnandi hlaðvarpsins Hjólvarpið.

„Ég hafði verið veikur í nokkra daga en hugsaði með mér að ég væri loksins orðinn nógu hress til að setjast á hjólið. Þegar ég var búinn að hjóla svona 750 metra bombar á mig Land Cruiser jeppi,“ heldur hann áfram.

Hann segir tvo Bandaríkjamenn hafa stokkið út úr bílnum í kjölfarið, sem hafi hrópað yfir sig í sífellu: „Oh my god! Oh my god!“. 

Rúllaði niður Ránargötu

„Þetta voru bara týpískir Ameríkanar í hvítum strigaskóm, eldri hjón. Það voru bara þau tvö í bílnum,“ segir Búi. 

Hann segist hafa verið í rétti, þar sem hann hafi verið á beinni leið en bíllinn var að beygja inn í hliðargötu yfir Ægisgötuna, þar sem Búi var að hjóla.

„Ég hélt að bíllinn myndi stöðvast, því hann hægði á sér, svo ég hélt bara áfram en svo keyrir ökumaðurinn bara allt í botn og ég bombast í grillið á bílnum og rúlla niður Ránargötuna.“

Búi í hjólatúr á góðviðrisdegi.
Búi í hjólatúr á góðviðrisdegi. Ljósmynd/ Búi Aðalsteinsson

Stungu af

„Þau voru að fara yfir minn vegarhelming, þannig þau voru í blússandi órétti. Þau stöðva bílinn í kjölfarið, þar sem ég lá fyrir framan hann, og kalla yfir sig og spyrja hvort það sé í lagi með mig þar sem ég ligg aðeins vankaður.“

Búi segist í kjölfarið hafa náð að reisa sig við. Þá hafi hjónin tjáð honum að þau hafi ætlað að fara aftur inn í jeppann til að finna bílastæði og koma aftur. Þau hafi hins vegar ekki staðið við það heldur stungið af. 

„Þetta var eins og bíómyndarsena. Það var fólk þarna í kring sem hringdi á lögguna af því að þetta leit ekki vel út. Löggan kom og sjúkrabíll og tóku atvikaskýrslu. Ég var þarna alveg í heillangan tíma að bíða eftir sjúkrabíl og svona, þannig að það er ekki eins og þau hafi ekki fundið bílastæði og að ég hafi verið farinn eftir tíu mínútur. Þau stungu af,“ segir Búi.

Búi hjólar.
Búi hjólar. Ljósmynd/Búi Aðalsteinsson

Slapp með minniháttar áverka

Aðspurður um eftirmála og áverka segir Búi að hann hafi sloppið vel og hjólið líka. Enn sem komið er séu ekki merki um beinbrot eða neitt slíkt en að hann sé marinn og bólginn eftir atvikið.

Búi segist blessunarlega hafa verið með hjálm og biðlar til fólks að fara varlega í umferðinni. Hann segir fólk almennt séð vera tillitsamara við hjólafólk á götum úti en áður fyrr þegar Búi byrjaði í hjólreiðum af krafti fyrir tíu árum. 

Þrátt fyrir það segir hann að hjólreiðafólk verði ávallt að hafa varann á. Hann bendir á að ferðamenn gætu verið óvanir hjólreiðamönnum, því sums staðar í heiminum sé lítil hjólamenning, til dæmis á mörgum stöðum í Ameríku. 

Hann telur að bílaleigur og ferðaþjónustufyrirtæki gætu gert betur í því að upplýsa ferðamenn um þær hættur og áskoranir sem gætu steðjað að þeim hér Íslandi og vonar að saga sín reynist fólki víti til varnaðar.

Hér má heyra hlaðvarp Búa á Spotify, þar sem hann fer yfir atvikið og fleira. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert