Fjórir skákmenn hafa fullt hús að loknum öðrum keppnisdegi á opna Íslandsmótinu í skák - 100 ára afmælismóti Skáksambands Íslands. Skákmennirnir eru: Stórmeistararnir Vignir Vatnar Stefánsson, Hannes Hlífar Stefánsson, alþjóðlegi meistarinn Aleksandr Domalchuk-Jonasson og FIDE-meistarinn Bárður Örn Birkisson.
Þessir fjórir mætast innbyrðis í fjórðu umferð á þjóðhátíðardegi Íslendinga. Bárður hefur hvítt gegn Vigni og Hannes hefur hvítt gegn Aleksandr Domalchuk-Jonassyni. Goðsögnin Ivan Sokolov hefur hvítt gegn Guðmundi Kjartanssyni og þarf að ná í vinning til að halda í við efstu menn eftir að hafa misst niður jafntefli gegn Braga Þorfinnssyni sem tefldi af öryggi gegn Ivan.
Fjórða umferðin hefst klukkan 16:00 í Krúttinu á Blönduósi.
FIDE meistararnir Björn Ívar Karlsson og Ingvar Þór Jóhannesson fóru yfir gang mála á öðrum keppnisdegi en fjallað verður um keppnina á mbl.is þar til yfir lýkur þann 21. júní.