Íbúar í Hveragerði fundu fyrir jarðskjálftanum sem varð á Suðurlandi rétt fyrir klukkan fjögur. Skjálftinn var 2,9 að stærð og voru upptök hans á Hengilssvæðinu.
Njörður Sigurðsson, bæjarfulltrúi í Hveragerði, var í bænum og fann fyrir skjálftanum. Hann sat heima hjá sér við eldhúsborðið þegar jörðin tók að skjálfa.
Njörður segir að glösin hafi byrjað að hristast en að öðru leyti hafi skjálftinn ekki komið að sök. Hvergerðingar séu enda alvanir jarðskjálftum.
„Við erum svo ofsalega vön þeim hér í Hveragerði. Það fylgir því að búa á jarðhitasvæði,“ segir Njörður.
„Þetta er alveg reglulega og hefur alltaf verið frá upphafi byggða,“ segir hann.
Ekki er langt síðan síðasti skjálfti af svipaðri stærðargráðu varð. Þann 26. maí síðastliðinn mældist skjálfti af stærð 3,3 á svipuðum slóðum.
Í dag eru 25 ár liðin frá Suðurlandsskjálftanum stóra sem var 6,6 að stærð.