Á dögunum opnaði Listasafnið á Akureyri dyr sínar fyrir fjórfætlingum en hundar voru þá velkomnir á sérstaka kvöldopnun safnsins ásamt eigendum sínum.
Aðgangur var ókeypis fyrir eigendur í fylgd hunda sinna og léttar veitingar í boði fyrir þá fjórfættu. Fyrstu gestir voru leystir út með óvæntum glaðningi og á Ketilkaffi, kaffihúsinu á jarðhæð safnsins, voru sérstakar veitingar í boði fyrir bestu vinina.
Hlynur F. Þormóðsson, kynningarstjóri Listasafnsins, segir hugmyndina hafa kviknað hjá Heiðu Björk Vilhjálmsdóttur, verkefnastjóra fræðslu og miðlunar á safninu.
Í samtali við mbl.is segir hann að á hugarflugsfundi um hvernig hægt væri að víkka út samtalið, bjóða sem flesta velkomna inn á safnið og fyrst og fremst gera eitthvað skemmtilegt, sem væri kannski utan rammans, hafi þessi skemmtilega hugmynd fæðst.
Aðspurður segir Hlynur að stemningin á hundakvöldinu hafi verið virkilega góð og það hafi komið starfsfólki skemmtilega á óvart hversu fólk var mætt snemma en nokkur óvissa var meðal skipuleggjenda með ákjósanlegan opnunartíma slíks viðburðar.
„Heilt yfir erum við mjög ánægð með mætinguna og stemninguna. Þetta var virkilega skemmtilegt, allir voru glaðir – hundar sem fólk.
Við ákváðum að halda viðburðinn frekar að kvöldi en degi. Fólk er auðvitað að klára sinn vinnudag, fara heim, elda kvöldmat og gefa öllum að borða. Þannig að þetta var frábært tækifæri fyrir hundaeigendur að taka kvöldgönguna, sem þau gera svo oft, og líta við hjá okkur og skoða list,“ segir Hlynur.
Fólk stoppaði vel við að sögn Hlyns og fór í gegnum alla salina.
„Við þurftum að loka inn á eina sýningu fyrir fjórfætlinga en tvífætlingum var hleypt þar inn, enda er það þannig í listasafni að mismunandi er hvort sýningar séu til þess gerðar að taka á móti fjórfætlingum.“
Spurður hvort einhverjir árekstrar hafi orðið segir Hlynur að það hafi alveg verið urrað og gelt en auðvelt hafi verið að koma í veg fyrir frekari eða stórkostlega árekstra.
Hann segir safnið hafa fengið skemmtilegan og myndarlegan styrk frá gæludýr.is. Þannig hafi hver eigandi og hver hundur fengið gjafapoka með hundaglaðningi og hundanammi einnig verið í boði. Þá hafi vatnsdöllum einnig verið dreift um húsnæðið og Ketilkaffi boðið upp á sérstakt Dogachino í formi þeytts rjóma með hundanammi.
Hlynur segir starfsfólk safnsins hæstánægða með hundakvöldið, það hafi fengið góð viðbrögð við framtakinu og til standi að vera áfram í hundunum.
„Þetta er eitthvað sem við ætlum klárlega að endurtaka og þegar hefur verið ákveðið að halda annað hundakvöld í september. Meiningin er að halda slíka viðburði tvisvar til þrisvar á ári, hugsa ég.“
Kemur til greina að útvíkka þessa hugmynd og bjóða kannski ketti velkomna næst?
„Eigum við ekki bara að segja: Leyfum dýrunum að koma til okkar, en alltaf í fylgd með eigendum sínum,“ segir Hlynur og hlær.