Eitt erilsamasta starf landsins er að standa vaktina sem forsætisráðherra. Kristrún Frostadóttir leggur höfuð áherslu á heilbrigðan lífsstíl til að vera alltaf klár og nýta tíma sinn sem best. Í Dagmálaþætti dagsins fékk hún þessa spurningu:
Hvernig heldur þú þér svona fit og fínni, eins og þú ert?
Hún segist ekki vera að hlaupa í dag, eins og hún gerði mikið af. Það hafi breyst eftir að hún eignaðist börn og þá tekið upp annan takt í lífinu. „Ég passa upp á mataræðið mitt. Ég passa upp á svefninn minn. Ég drekk ekki, sem er auðvitað eitthvað sem ég á ekki að vera að segja opinberlega vegna þess að það er mjög leiðinleg staðreynd um mig. En þetta er bara eitthvað sem ég ákvað að gera eftir að ég eignaðist börn og fór í þetta starf. Vegna þess að ég hef ekki endalausan tíma. Eitthvað verður undan að gefa. Ég vil bara vera með hausinn á og sofa vel og geta alltaf verið klár ef eitthvað þarf til,“ upplýsir Kristrún.
En áttu ekki einmitt að upplýsa þetta, verandi sú fyrirmynd sem þú ert?
„Maður verður að passa sig þegar maður ræður þessi mál að segja fólki ekki fyrir verkum. Fólk getur bara hagað sínu lífi eins og það vill en í mínu tilviki þá hentar þetta mér bara vel. Ég er með mjög þétta dagskrá. Ég vinn mikið en ég eyði ofboðslega miklum tíma með fjölskyldunni, ég er með lítil börn og þetta hefur reynst mér mjög vel. Þegar þú ert í svona starfi þá er lykilatriði að hafa stjórn á þeim aðstæðum sem þú ert í. Þá þarft þú að reyna að vera með eins mikið jafnaðargeð og þú getur verið með. Þá getur áfengi vanstillt mann og ég bara kýs að láta það ekki hafa áhrif á mig. Ég get skemmt mér heilmikið án þess og það er alveg vitnisburður um það. En þetta er fyrst og fremst almennt jafnvægi í lífinu og ég reyni að hreyfa mig inn á milli,“ sagði hún.
Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra er gestur Dagmála á þjóðhátíðadegi Íslendinga.
Viðtalið má nálgast með því að smella á hlekkinn hér að neðan og geta áskrifendur þá horft á það í heild sinni.