Skjálfti reið yfir Hveragerði laust fyrir klukkan fjögur í dag.
Íbúar í Hveragerði fundu vel fyrir skjálftanum að því er fram kemur á Facebook-síðu Hvergerðinga.
Náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir fyrstu mælingar benda til þess að skjálftinn hafi verið um 3 að stærð. Voru upptök hans á Hengilssvæðinu.
Nokkrir minni skjálftar hafa fylgt í kjölfarið.
Uppfært klukkan 16.24:
Skjálftinn var 2,9 að stærð skv. tilkynningu Veðurstofunnar. Þar kemur einnig fram að skjálftinn hafi fundist í Hveragerði.
Jarðskjálftar eru algengir á svæðinu en þann 26. maí síðastliðinn varð skjálfti af stærð 3,3 á svipuðum slóðum.