Allt að 1.000 synjað um verknám á hverju ári

Samtök iðnaðarins telja alvarlegan skort vera á iðnmenntuðu starfsfólki á …
Samtök iðnaðarins telja alvarlegan skort vera á iðnmenntuðu starfsfólki á Íslandi. Ljósmynd/Colourbox

Meistaradeild Samtaka iðnaðarins segja að um 600 til 1.000 nemendum sé synjað um skólavist í iðn- og tækninámi á ári hverju. Ástæðuna telja þeir vera skort á aðstöðu, þ.e. fjármagni og húsnæði. Samtökin kalla eftir því að framkvæmdum við verknámsskóla verði flýtt. 

Þetta kemur fram í ályktun frá MSI. Þar segjast samtökin fagna áherslu ríkisstjórnarinnar um eflingu verknáms með uppbyggingu í framhaldsskólum og fleiru. Þau telja þörfina þó brýna og að betur megi gera, ef duga skuli, því skorturinn sé orðinn alvarlegur.

MSI segir að í könnun meðal aðildarfyrirtækja Samtaka iðnaðarins hafi 48% starfsfólks og 56% stjórnenda þeirra talið að „alvarlegur skortur á iðnmenntuðu starfsfólki,“ sé til staðar. 

Þarf 800 rafvirkja á næstu 5 árum

Fyrirtæki í rafiðnaði telja til dæmis að ráða verði um 800 rafvirkja á næstu fimm árum. 67% stjórnenda fyrirtækja í iðnaðinum segja erfiðleika við að fá fólk í þau störf hafa hamlað vexti fyrirtækjanna. 

Þá segir MSI einnig að hlutfall ungmenna á Íslandi sem velja iðnnám sé lægra en gengur og gerist í öðrum OECD-ríkjum. Því vilji þau breyta með markvissum aðgerðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert