Árangur fyrir borgarbúa lítill og þörf á breytingum

Hildur kveðst vonast eftir breytingum að loknum kosningum. Heiða Björg …
Hildur kveðst vonast eftir breytingum að loknum kosningum. Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri staðfesti í samtali við mbl.is í dag að hún hygðist leiða lista Samfylkingarinnar. Samsett mynd

Ef vinstri meirihlutinn í Reykjavík heldur velli í næstu sveitarstjórnarkosningum er ljóst að árangur fyrir borgarbúa verður lítill.

Þetta segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í samtali við mbl.is. 

„Það hefur birst okkur nokkuð skýrt að þessi fimm flokka vinstri meirihluti mun ekki ná miklum árangri fyrir borgarbúa. Við sjáum hverja óheillaákvörðunina á fætur annarri tekna á vettvangi borgarstjórnar þessi misserin og við teljum nauðsynlegt að hér verði breyting á,“ segir Hildur spurð hverjar afleiðingarnar verða ef meirihlutinn fær umboð til að stýra borginni í fjögur ár í viðbót.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins rúmlega 31%

Viðskiptablaðið birti könnun Gallups í dag af fylgi flokkanna í Reykjavík. Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur með ríflega 31% fylgi og hefur flokkurinn á þessu ári almennt mælst með yfir 30% fylgi.

„Við erum auðvitað gríðarlega ánægð með þessar fylgismælingar sem hafa birst á árinu og hafa allar sýnt að við erum stærsti, eða jafnvel langstærsti, flokkurinn í borginni. Þær endurspegla jafnframt þann meðbyr sem við skynjum í samtölum við fólk. En það sem mestu skiptir er það sem kemur upp úr kjörkössunum og við munum halda áfram að róa öllum árum að því að ná góðum niðurstöðum í næstu kosningum,“ segir Hildur.

Sveitarstjórnarkosningar fara fram í maí á næsta ári og Hildur kveðst vonast eftir breytingum á stjórn borgarinnar. 

Meirihlutinn ekki viljað lækka skatta

Helsti munurinn á þessari könnun og þeirri sem Viðskiptablaðið lét Gallup framkvæma í mars er sá að meirihluti Samfylkingar, Flokks fólksins, Pírata, Vinstri grænna og Sósíalista heldur velli með 12 borgarfulltrúa af 23. Hildur kveðst vonast til þess að ný forysta taki við stjórnartaumunum að loknum kosningum í maí á næsta ári.

Hún segir stærstu áskoranir borgarinnar vera húsnæðismál, samgöngumál og málefni bæði leik- og grunnskóla. Illa sé farið með skattfé, stjórnsýslan þung og skattar of háir.

„Við höfum ekki séð borgina sýna vilja til að ráðast í lækkun skatta þó að svigrúm sé til. Núna á dögunum fengum við nýtt fasteignamat sem hefur hækkað ár frá ári á þessu kjörtímabili heilt yfir gríðarlega mikið. En Reykjavík hefur verið eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem hefur ekki brugðist við með því að lækka sín álagningarhlutföll,“ segir Hildur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert