Dómsmálaráðherra gaf ákvörðun frá sér

Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins.
Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Anton Brink

Guðrún Hafsteinsdóttir formaður sjálfstæðisflokksins lýsir furðu á viðbrögðum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra og formanns Viðreisnar í þingsal, en mbl.is ræddi við Guðrúnu í Kringlunni í Alþingishúsinu.

Hún telur harkaleg viðbrögð Þorgerðar í reynd hafa verið viðbragð við atkvæðaskýringu hennar um varnarmál, þar sem hún færði rök fyrir því að netöryggissveitin CERT-IS ætti frekar heima í dómsmálaráðuneytinu en utanríkisráðuneytinu.

Hún segir aðgerðarleysi Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra síðasta hálfa árið í máli ríkissaksóknaraembættisins munu reynast kostnaðarsamt og veltir því upp hvort ráðherrann hafi í reynd verið vanhæfur í málinu.

Kastast í kekki í þingsal

„Ég held að það hafi eitthvað farið fyrir brjóstið á hæstvirtum utanríkisráðherra, þó að hún hafi í atkvæðagreiðslu við varnarmál ákveðið að gera athugasemd við orð mín í atkvæðagreiðslu um fjárauka sem þá var lokið.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. Guðrún segir viðbrögð ráðherrans skýrast af …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. Guðrún segir viðbrögð ráðherrans skýrast af því að gagnrýni hennar hafi farið fyrir brjóst ráðherrans. mbl.is/Eyþór Árnason

Guðrún benti þar á að í fjáraukanum eigi að ná með hagræðingu upp á þrjú hundruð og þrjátíu milljónir og setti það í samhengi við að líklega muni starfslok Helga Magnúsar Gunnarssonar fráfarandi vararíkissaksóknara kosta íslenska skattgreiðendur 350 milljónir króna.

„Hann nýtur fullra launa næstu níu árin, án nokkurs vinnuframlags. Þetta er mál sem ég var búin að afgreiða á síðasta ári, á grundvelli faglegrar og vandaðrar skoðunar og greiningar. Ég fékk meðal annars tvær virtustu lögmannsstofur landsins til þess að vinna álit um málið.“

Ferlið tók sex vikur og var Guðrún gagnrýnd mikið fyrir það.

„Ég vildi vanda mig sérstaklega vegna þeirrar stöðu sem viðkomandi embættismaður var í, bæði hvað varðar það að hann hafði sannarlega orðið fyrir ofbeldi og hótunum. Hann óttaðist beinlínis um líf sitt og limi, og kvartaði yfir því að það hefði ekki verið hlustað á hann eða hann hefði ekki fengið þá aðstoð sem hann hefði óskað eftir af hendi síns yfirmanns.“

Hún taldi ekki rétt að víkja honum úr starfi.

„Ég tók þá ákvörðun með skýra ábyrgðarsýn. Ég horfði ekki síst til meðalhófs þegar ég horfði á málið í heild sinni. Vissulega voru ummæli hans afar óheppileg, en ég mat það samt sem svo að hann gæti sinnt störfum sínum og hans yfirmaður gæti látið hann hafa verkefni sem hann gæti sinnt.“

Starfsmannamál sem var til lykta leitt

Hún lítur á málið sem starfsmannamál og segir engan vafa leika á því að hún lauk málinu á sínum tíma.

„Mér finnst bara algjörlega óboðlegt og óábyrgt að núverandi dómsmálaráðherra ætli að klína sínu eigin ábyrgðarleysi yfir á mig. Ríkissaksóknari viðraði þetta mál við hana fyrir um sex mánuði síðan – ég minni á að ég var gagnrýnd fyrir að skoða málið í sex vikur. Hún hefur haft þetta mál í sex mánuði á borðinu og allt tal hennar um það að hún hafi erft þetta, að þetta hafi verið óklárað verk á hennar borði, það er algjör fjarstæða og bull. Þetta mál var afgreitt.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra. Guðrún gagnrýnir aðgerðarleysi hennar yfir margra …
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra. Guðrún gagnrýnir aðgerðarleysi hennar yfir margra mánaða skeið. mbl.is/Eyþór

Þannig að ef Þorbjörg Sigríður, dómsmálaráðherra, hefur verið það ósátt við þá ákvörðun sem ég tók á sínum tíma, þá hefur það verið henni í lófa lagið síðustu sex mánuði að breyta þeirri ákvörðun minni. Hún hefur aldrei verið bundin af minni ákvörðun, svo því sé komið skýrt á framfæri.“

Ríkissaksóknari tók ákvörðun fyrir ráðherra

Í stað þess að gera það hafi hún látið fyrrverandi yfirmann sinn, Sigríði Friðjónsdóttur, taka ákvörðun fyrir hennar hönd í málinu.

„Hún valdi að láta málið malla áfram og það er á hennar ábyrgð hvernig hún hefur haldið á málinu. Þetta ákvörðunarleysi núverandi dómsmálaráðherra, það er að fara að kosta almenna skattgreiðendur í landinu hátt í 400 milljónir. Það finnst mér alvarlegt og ég gerði athugasemd við það. Það hefur farið afskaplega mikið fyrir brjóstið á formanni Viðreisnar.“

Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari og Helgi Magnús Gunnarsson fráfarandi vararíkissaksóknari.
Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari og Helgi Magnús Gunnarsson fráfarandi vararíkissaksóknari. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Aðspurð hvort hægt hefði verið að taka á vanda ríkissaksóknarana tveggja öðruvísi á undanförnum mánuðum, svo embættið yrði starfhæft með Sigríði og Helga Magnús innanborðs segir Guðrún:

„Ég ítreka það að ég lít á þetta fyrst og síðast sem starfsmannamál. Þetta eru æðstu yfirmenn saksóknara á Íslandi og þeir hefðu einfaldlega átt að finna út úr því hvernig þeir hefja sín embætti yfir vafa og sýna þjóðinni að þeir séu starfi sínu vaxnir sem ábyrgir embættismenn, og það áttu þeir að gera.

Ég tók ákvörðun og ég stóð með henni. Ég upplýsti bæði embættin og almenning um mína niðurstöðu. Það er ábyrg stjórnsýsla. Það er hins vegar ekki ábyrg stjórnsýsla að gera ekki neitt í sex mánuði.“

Bæði verið yfirmenn dómsmálaráðherrans

Guðrún segist jafnframt hafa velt því fyrir sér hvort núverandi dómsmálaráðherra hafi verið vanhæfur í málinu.

„Ég var mjög hissa að svo til á fyrsta degi í embætti segir núverandi dómsmálaráðherra þegar hún er spurð um þetta mál: 'Ég mun taka það til ígrundaðrar skoðunar og vanda mig í því ferli'.

Mig undraði það verulega að hún skyldi stíga svona fljótt inn í þetta mál á þeim tímapunkti, vegna þess að ég tel að það geti vel verið svo að hún sé vanhæf í málinu vegna þeirrar staðreyndar að báðir þessir einstaklingar, ríkissaksóknari og vararíkissaksóknari, hafa verið yfirmenn núverandi dómsmálaráðherra. Það finnst mér svolítið sérstök staða og ég undraði mig á því að hún skyldi stíga inn í málið í stað þess að segja sig frá því strax í upphafi og láta einhvern annan ráðherra úrskurða um það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert