Beiðni um aðstoð barst í morgun frá litlum fiskibát eftir að bilun kom upp í stýribúnaði hans.
Áhöfn björgunarbátsins Fiskakletts í Hafnarfirði var kölluð út rétt upp úr klukkan átta í morgun.
Fiskaklettur var kominn að bátnum, sem þá var staddur rétt norður af Syðra-Hrauni í Faxaflóa, um hálftíuleytið í morgun og kom áhöfnin þá taug á milli bátanna. Stefnan var síðan sett inn til Hafnarfjarðar, að því er segir í tilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu.
Þangað kom Fiskaklettur með fiskibátinn í hádeginu, þar sem hægt var að landa þeim afla sem um borð var.
Í gær barst aðstoðarbeiðni frá hópi göngufólks þegar einn úr hópnum hafði slasast á fæti í fjallshlíð ofan við bæinn Grímkelsstaði, suður af Þingvallavatni í Grafningnum, á svokallaðri Kattartjarnarleið.
Björgunarsveitir frá Hveragerði, Selfossi og úr Árnesi fóru á vettvang með utanvegahjól, mannskap og búnað til að flytja sjúklinginn.
Komið var að hópnum og þeim slasaða rétt undir hádegið og honum komið fyrir í sjúkrabörum og hann búinn undir flutning. Sérútbúnar sjúkrabörur með hjóli undir voru notaðar og gekk flutningur vel að sjúkrabíl, sem beið neðan hlíðarinnar.