Framleiðendur dansa á línunni

Koffínmagn vinsælustu orkudrykkja landsins eru einu milligrammi frá reglumörkum.
Koffínmagn vinsælustu orkudrykkja landsins eru einu milligrammi frá reglumörkum. mbl.is/Arnþór Birkisson

Vinsælustu orkudrykkirnir hérlendis eru einu milligrammi af koffínmagni frá reglum um hámarks koffínmagn sem selja má til ungmenna yngri en 18 ára. 

Orkudrykkir eru vinsælir meðal ungmenna en í fyrra neyttu 31 prósent framhaldsskólanema orkudrykkja að minnsta kosti fimm sinnum í viku. 

Jóhanna Eyrún Torfadóttir, verkefnisstjóri næringar á lýðheilsusviði embættis landlæknis, segir algengt að íþróttafyrirmyndir séu notaðar í markaðssetningu orkudrykkja og markaðssetningin beinist oft beinlínis að börnum og ungmennum.

Einu milligrammi frá reglumörkum

Í 330 millilítra dós af vinsælustu orkudrykkjunum á íslenskum markaði eru 105 milligrömm af koffíni.

Samkvæmt reglum má hámarks koffínmagn drykkja sem seldir eru ungmennum undir 18 ára aldri, ekki fara yfir 32 milligrömm í hverjum 100 millilítrum.

Þá eru mörkin 106 milligrömm í 330 millilítra dós, einungis einu milligrammi meira en vinsælustu orkudrykkir innihalda.

Jóhanna segir orkudrykkjaframleiðendur ganga verulega nálægt mörkum þess sem reglur heimila.

35% stelpna á framhaldsskólaaldri drekka að minnsta kosti fimm orkudrykki …
35% stelpna á framhaldsskólaaldri drekka að minnsta kosti fimm orkudrykki í viku. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Neysla ungmenna aukist

Samkvæmt Æskulýðsrannsókninni frá árinu 2020 voru tæplega 24% framhaldsskólanema sem neyttu orkudrykkja fjórum sinnum í viku, en á einu ári jókst hlutfallið í rúmlega 30%.

Í Æskulýðsrannsókninni í fyrra var svarmöguleikum breytt úr fjórum orkudrykkjum í fimm. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að 31% framhaldsskólanema drekka orkudrykki fimm sinnum í viku.

Helmingur framhaldsskólanema neytir tveggja orkudrykkja eða fleiri á viku.

Þá eru stúlkur í meirihluta, en 35% þeirra neyta í hið minnsta fimm orkudrykkja á viku, samanborið við 28% stráka. 

Hvar liggja mörkin?

Samkvæmt Heilsuveru er hámarksneysla koffíns barna yngri en 18 ára reiknuð þannig að miðað er við 1,4 milligramm á hvert kíló.

Því má áætla að fyrir 70 kílóa framhaldsskólanema séu mörkin 98 milligrömm á dag, 7 milligrömmum minna en er í einni hefðbundinni dós af vinsælum orkudrykk. Hámarksneysla fyrir 50 kílóa ungmenni eru 70 milligrömm af koffíni á dag. 

Þá er hámarkskoffínneysla fullorðinna einstaklinga 400 milligrömm á dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert