Halla minnist bekkjarsysturinnar frá Minnesota

Halla Hrund Logadóttir og Melissa Hortmann voru bekkjarsystur við Harvard-háskóla.
Halla Hrund Logadóttir og Melissa Hortmann voru bekkjarsystur við Harvard-háskóla. Samsett mynd/AFP/Steven Garcia/Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Í ræðu á Alþingi í dag minntist Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknar, Melissu Hortman, bekkjarsystur sinnar og þingmanns í Minnesota, sem var myrt um helgina.

Halla og Hortman voru bekkjarsystur við Harvard-háskóla þar sem þær stunduðu meistaranám í opinberri stjórnsýslu.

Fyrirmynd í stjórnmálum

Halla minntist Hortman sem einnar af sínum fyrirmyndum í stjórnmálum:

„Henni tókst einhvern veginn að sameina það að geta verið hlý, föst, talað fyrir þeim sem minna mega sín og haft langtímasýn.“

Melissa Hortman var myrt síðasta laugardag.
Melissa Hortman var myrt síðasta laugardag. AFP/Paul Battaglia/Minnesota State Legislature

Hún segir Hortman jafnframt hafa verið þekkta fyrir að geta byggt brýr og dregið fólk saman.

Daginn áður en hún var myrt hafi Hortman kosið með fjárlagafrumvarpi Repúblikana og hugsað með því „ofar því að höfða einungis til eigin kjósenda“.

Mikilvægt að teygja sig yfir ganginn

Halla segir þá samfélagslegu skautun sem birst hafi í atburðum helgarinnar dæmi um að það sé mikilvægt fyrir stjórnmálamenn að „teygja sig yfir ganginn,“ vinna saman að málamiðlunum og sýna að þrátt fyrir ólík sjónarmið sé hægt að finna leiðir í gegnum samvinnu, hlustun og samtal.

„Þegar Melissa tók við sem leiðtogi Demókrata á þingi Minnesota þá sagði hún: „Við erum ekki hér til að forðast ágreining. Við erum hér til þess að eiga í ágreiningi.“

Halla segir slíkan ágreining mikilvægan hluta af lýðræðisferlinu.

Hún ítrekar jafnframt að þrátt fyrir að samvinna og málamiðlanir skili kannski minni skrefum fyrir árangur og markmið einstakra flokka þá skili slíkt oft samhentara þjóðfélagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert