Leitin að Hafdísi skilaði árangri

Hafdís er komin í leitirnar.
Hafdís er komin í leitirnar. Samsett mynd/SOS barnaþorpin

Ambika, kona af indverskum uppruna sem ólst upp í SOS Barnaþorpinu í Greenfields á Indlandi, mun fá tækifæri til að hitta SOS-foreldri sitt frá Íslandi, hana Hafdísi.

Ambika leitaði til SOS Barnaþorpanna með þá ósk um að komast í samband við styrktaraðilann sem studdi hana í gegnum æskuárin og var brugðið á það ráð að auglýsa eftir henni. Nú rúmum áratug eftir síðustu samskipti þeirra hefur leitinni lokið með ánægjulegum hætti, en í vikunni tókst að hafa uppi á Hafdísi.

Hún hafði lítið verið á netinu undanfarið og vissi ekki af leitinni fyrr en henni var tilkynnt það með beinum hætti.

Ambika hafði snúið sér til SOS samtakanna á Indlandi í mars síðastliðnum, en þaðan var henni bent á skrifstofuna á Íslandi. Hans Steinar Bjarnason, upplýsingafulltrúi SOS Barnaþorpanna á Íslandi, segir að fyrirspurnin hafi borist í tölvupósti og aðeins nafn Hafdísar látið fylgja.

„Við leituðum í okkar gögnum en fundum enga Hafdísi sem passaði við það að hafa styrkt barn í barnaþorpinu Greenfields. Það hafa hátt í áttatíu þúsund Íslendingar styrkt SOS Barnaþorpin frá því að starfsemin hófst hér árið 1989, þessi gögn geymast ekki endalaust, meðal annars vegna persónuverndarlaga,“ segir Hans Steinar.

Færsla á Facebook skipti sköpum

Eftir að engar niðurstöður fengust úr gagnasafni samtakanna, ákváðu starfsmenn að birta færslu á Facebook í von um að ná til Hafdísar með almennri leit.

Sú færsla vakti mikla athygli og deilingar fjölmargra urðu til þess að ábending barst frá konu sem þekkti til Hafdísar, sem ber nafnið að millinafni.

„Ég fékk fullt nafn og fann hana í kerfinu. Þar kom þó ekki fram bein tenging við Ambiku, enda geymum við ekki slíkar upplýsingar. Ég hafði samband við hana og hún varð eiginlega bara fyrir vægu áfalli. Hún hafði mikið hugsað til Ambiku í gegnum árin, sérstaklega eftir að hún flutti úr barnaþorpinu og fór að standa á eigin fótum.“

„Henni varð svo mikið um að heyra þetta að hún sagðist þurfa smá tíma til að meðtaka þetta allt saman, bæði það að hún væri orðin að fréttaefni og að fá þetta tækifæri til að hitta Ambiku,“ segir Hans Steinar. 

Síðustu samskipti við Ambiku voru í apríl, að sögn Hans Steinars.

„Við upplýstum hana um stöðuna á leitinni og nú höfum við sent henni skilaboð í gegnum tölvupóst og samfélagsmiðla. Við bíðum nú staðfestingar á því að ferðin standi enn, en hún hafði sagt fyrirfram að hún hygðist koma til Íslands um mánaðamót júní og júlí ásamt eiginmanni sínum.“

Sjaldgæft en ekki einsdæmi

Hans Steinar segir að slík endurfundir séu sjaldgæfir en þó ekki einsdæmi.

„Þetta er ekki mjög algengt, en kemur fyrir. Okkar fyrirkomulag byggist á því að styrktarforeldrar fá tvö bréf á ári, annað með almennum fréttum úr barnaþorpinu og hitt með upplýsingum um barnið sem þeir styðja. Á árum áður voru þær upplýsingar persónulegri, en persónuvernd hefur kallað á breytingar. Margir hafa þó tekið upp persónuleg samskipti, t.d. með jólakortum, myndum og litlum gjöfum.“

Hann nefnir dæmi um sambærilegan endurfund fyrir tveimur árum. Þá hafi íslensk kona sem áður styrkti stúlku af tíbetskum uppruna í barnaþorpi á Indlandi fengið símtal frá henni löngu síðar. Þær höfðu áður hist í heimsókn árið 2007, en stúlkan er nú komin til hæstu metorða innan menntamálakerfisins í Tíbet.

„Það voru hjartnæmir endurfundir. Það er alltaf einstaklega gefandi í þessu starfi að sjá sögur sem þessar lifna við. Við hjá SOS vitum hvað stuðningurinn gerir, en það er dýrmætt að fá svona áþreifanlegar sannanir þess að stuðningurinn skiptir raunverulega máli,“ segir Hans Steinar.

Hann segir að styrktaraðilar geti kynnt sér starfsemi samtakanna og tekið þátt í stuðningi á heimasíðu samtakanna, þar sem einnig má lesa fleiri frásagnir, sjá myndir og fylgjast með starfi barnaþorpanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert