Alls hafa sjö íslenskir ríkisborgarar í Ísrael verið í sambandi við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins en þrír þeirra hafa þegar yfirgefið landið.
Þá eru níu íslenskir ríkisborgarar staddir í Íran.
Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is.
Þar segir einnig að báðir hópar hafi fengið upplýsingar um opin landamæri og venjuleg farþegaflug t.a.m. frá Jórdaníu og Egyptalandi.
„Utanríkisráðuneytið á í miklu og reglubundnu samtali við hin Norðurlöndin sem og önnur Evrópuríki en ekki eru á þessari stundu skipulagðir brottflutningar frá Íran.
Ísland gefur öllu jafnan ekki út ferðaviðvaranir heldur reiðir sig á helstu samstarfsríki, þ.á.m. Norðurlöndin, í þeim efnum og þau hafa í töluverðan tíma haft í gildi ferðaviðvaranir eða -ráð vegna ferðalaga til Mið-Austurlanda, m.a. til Ísrael og Íran,“ segir í svarinu.