Meginorsök banaslyss sem varð á þjóðvegi 1 skammt vestan við afleggjarann að Skaftafelli í janúar í fyrra var sú að ökumaður annarrar bifreiðarinnar missti stjórn á henni í glerhálku og fór yfir á gagnstæðan vegarhelming.
Þetta kemur fram í niðurstöðu Rannsóknarnefndar samgönguslysa sem hefur birt skýrslu um slysið.
Slysið varð 12. janúar 2024 þegar Dacia-fólksbifreið var ekið norðaustur Suðurlandsveg við Skaftafell. Á sama tíma var Audi-fólksbifreið ekið úr gagnstæðri átt suðvestur Suðurlandsveg. Um 180 metrum suðvestan við gatnamótin að Skaftafellsvegi fór Audi-bifreiðin yfir á rangan vegarhelming og framan á Dacia-bifreiðina í hörðum árekstri.
Tveir farþegar sem voru í Dacia-bifreiðinni létust og ökumaðurinn slasaðist. Í Audi-bifreiðinni voru fjórir farþegar auk ökumanns og slösuðust þau öll.
Í greiningarkafla skýrslunnar kemur fram að ökumaður Audi-bifreiðarinnar missti stjórn á henni í glerhálku og í framhaldi af því fór bifreiðin yfir á gagnstæðan vegarhelming.
37 ára kona og 52 ára karl létust í slysinu og voru þau báðir erlendir ferðamenn.
Skömmu fyrir slysið þegar Audi-bifreiðin var nýkomin úr aflíðandi vinstri beygju byrjaði afturendi hennar að renna til hægri. Þegar ökumaður náði stjórn á bifreiðinni var hún komin yfir á vinstri vegarhelming. Þar skall hún beint framan á Dacia-bifreiðina í hörðum árekstri.
Allir í Dacia-bifreiðinni voru spenntir í öryggisbelti. Farþegarnir létust báðir á slysstað sökum fjöláverka. Ökumaðurinn var fluttur slasaður með þyrlu Landhelgisgæslunnar á sjúkrahús.
Allir í Audi-bifreiðinni voru spenntir í öryggisbelti. Þeir slösuðust mismikið og voru allir fluttir á sjúkrahús með þyrlu Gæslunnar.
Í skýrslunni kemur fram um aðrar orsakir slyssins að slag hafi verið í hægri afturhjólalegu Audi-bifreiðarinnar, auk þess sem viðgerð á ABS-tengi var biluð við sama hjól. Líklegt er að ABS og þar með stöðugleikakerfi bifreiðarinnar hafi verið óvirkt. Einnig gat mismunandi fjöldi nagla í hjólbörðum bifreiðarinnar haft áhrif á akstur hennar í hálku.
Framfarþegasæti Dacia-bifreiðarinnar gekk fram og upp að aftan og þrengdi þannig verulega að farþega í framsæti, sem lést. Öryggispúði í mælaborði, fyrir framan farþegann, sprakk út í árekstrinum.
Farþegi í aftursæti, sem lést í slysinu, hefur sennilega setið framarlega á setunni og þannig verið með öryggisbeltið dregið verulega út, segir í niðurstöðunum.
Við áreksturinn lenti hann á baki framfarþegasætis í bifreiðinni, þrátt fyrir að vera spenntur í öryggisbeltið.
Vegurinn á slysstað hafði ekki verið hálkuvarinn þegar áreksturinn varð.