Bíladagar á Akureyri gengu framar vonum skipuleggjenda. Mikil aðsókn var á hátíðina og veðurguðirnir voru henni hliðhollir.
„Það leit ekki vel út fyrir tíu dögum síðan, þegar við vorum að undirbúa, en veðrið var bara frábært og við þurftum ekki að fresta neinum viðburðum,“ segir Einar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Bílaklúbbs Akureyrar, í samtali við mbl.is.
„Þetta gekk allt saman mjög vel og við erum gríðarlega ánægð.“
Spurður hver vinsælasti viðburðurinn hafi verið segir Einar hópinn sem sæki hátíðina mjög fjölbreyttan en götuspyrnan sé hápunkturinn fyrir akstursíþróttamenn.
„Götuspyrnan var á laugardaginn og það var metþátttaka. Um 100 ökutæki tóku þátt sem er mjög stórt.“
Þá segir hann burnout-keppnina, bíladaga-útgáfuna af flugeldasýningu, vera mestu veisluna og lokaviðburðinn á svæðinu sjálfu. Hún var haldin á mánudagskvöldið.
Daníel Freyr Jónsson var í öðru sæti í burnout-keppninni og er að sögn Jóns Gunnlaugs Stefánssonar, varamanns í stjórn Bílaklúbbs Akureyrar og föður Daníels, þegar farinn að undirbúa „ennþá flottara show fyrir næstu bíladaga, ári fram í tímann“.
Bílasýningin er lokaviðburður hátíðarinnar og var að þessu sinni „stanslaus röð allan daginn“, að sögn Einars.
„Það koma allir á bílasýninguna. Þú þarft ekki að hafa sérstakan áhuga á mótorsporti sem slíku til að njóta hennar, bílasýningin er bara hluti af 17. júní á Akureyri,“ segir hann.
Á bílasýningunni var í boði að prófa ökuhermi sem Einar segir orðið mjög vinsæla afþreyingu.
„Menn eru farnir að keppa í hermiakstri á heimsvísu, meistaramót í hermiakstri. Íslendingar eru farnir að taka þátt í Evrópumeistararöðum, þetta er vaxandi sport.“