Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið var varað við því á sínum tíma að reglugerð sem sett var á fót í fyrra væri til þess fallin að auka flækjustig.
Ákvæðið um fjögurra vikna auglýsingaskyldu vegna veitingareksturs var innleitt í reglugerð um hollustuhætti sem sett var í fyrra og byggði á eldri lagabreytingum frá árinu 2017. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var þáverandi ráðherra.
Í þeirri reglugerð var kveðið á um að heilbrigðiseftirlit skyldi auglýsa allar tillögur að starfsleyfum í fjórar vikur og skila greinargerð um athugasemdir sem bárust.
Heilbrigðiseftirlit landsins lýsti þó strax miklum efasemdum um þessa skyldu.
Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sagði meðal annars að krafan yki flækjustig að óþörfu og væri bæði íþyngjandi og óþörf, þar sem starfsleyfi byggðu hvort eð er á samþykktum teikningum og skipulagi.
„HER [Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur] telur þetta valda óþarfa flækjustigi og telur enga ástæðu fyrir að auglýsa skuli starfsleyfi skv. hollustuháttareglugerð enda eiga þau öll að standast kröfur reglugerðarinnar sem og kröfur í gildandi skipulagi og hafa samþykktar teikningar hjá viðkomandi byggingarfulltrúa. Svona krafa er mjög íþyngjandi fyrir atvinnulífið auk þess sem flækjustig eykst talsvert.“
Svipaðar athugasemdir komu frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra, sem taldi ákvæðið ekki samræmast markmiðum stjórnvalda um einfaldara regluverk, og frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, sem líkti málsmeðferðinni við meðferð á leyfum fyrir mengandi stóriðju.
„Þessi málsmeðferð að setja starfsleyfisskilyrði í kynningu í fjórar vikur er í stíl við afgreiðslu leyfa sem eru gefin út fyrir mengandi verksmiðjur svo sem járnblendi eða álver! Þetta er hreinasti óþarfi.“
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, hefur lagt fram drög að nýrri reglugerð sem er ætlað að fella niður kröfuna um að auglýsa starfsleyfi vegna veitingareksturs í fjórar vikur.
Samkvæmt drögunum, sem nú liggja fyrir í samráðsgátt stjórnvalda, verður veitingarekstur framvegis einungis skráningarskyldur, en ekki starfsleyfisskyldur, eins og áður var.