Ísland situr í 15. sæti í samkeppnishæfni árið 2025 og hækkar um tvö sæti á milli ára samkvæmt úttekt IMD-háskólans í Sviss á samkeppnishæfni alls 69 ríkja.
Sviss er samkeppnishæfasta ríki heims samkvæmt úttektinni, sem er ein sú umfangsmesta sinnar tegundar. Hún metur getu ríkja til að skapa verðmæti og góð lífskjör til frambúðar.
Viðskiptaráð Íslands hefur annast úttektina fyrir hönd Íslands frá því að landið tók fyrst þátt árið 2004.
Gunnar Úlfarsson hagfræðingur Viðskiptaráðs segir sætishækkunina fyrst og fremst til komna vegna aukinnar skilvirkni atvinnulífsins í alþjóðlegum samanburði. Efnahagsleg frammistaða hækkar um eitt sæti milli ára en þar er Ísland í 52. sæti. Skilvirkni hins opinbera lækkar hins vegar um eitt sæti milli ára og situr Ísland í 18. sæti.
„Þessar niðurstöður sýna að á Íslandi hefur okkur tekist í alþjóðlegum samanburði að skapa vel smurða verðmætasköpunarvél. Ef við viljum ná þeim þjóðum sem við berum okkur gjarnan saman við þurfum við að halda áfram á þeirri vegferð sem við höfum verið á og skipta í næsta gír til að tryggja áframhaldandi sókn og góð lífskjör hér á landi,“ segir Gunnar.
Norðurlandaríkin hafa lengi vel skipað sér á meðal samkeppnishæfustu ríkja heims. Danmörk er í 4. sæti, Svíþjóð í 8., Noregur í því 12. og Finnland í 14. sæti, aðeins einu sæti ofar en Ísland. Gunnar segir að sem betur fer undanfarin 15 ár höfum við nálgast hin ríkin, en árið 2010 sat Ísland í 30. sæti. Það sem munar mestu á milli Íslands og hinna Norðurlandaríkjanna er efnahagsleg frammistaða og skilvirkni hins opinbera.
Viðskiptaráð hefur mótað tillögur í fjórum áhersluflokkum sem allar myndu bæta samkeppnishæfni Íslands og þannig auka hagsæld.
Flokkarnir eru fjármál hins opinbera og leggur Viðskiptaráð þar meðal annars til að stjórnvöld ættu að draga úr hallarekstri og skila afgangi af rekstri hins opinbera, lækka skuldir og minnka þannig vaxtagreiðslur. Annar flokkurinn er skattar, með því að draga úr útgjöldum megi skapa svigrúm til þess að lækka skatta. Þriðji flokkurinn er leikreglur og á þar við að með afnámi viðskiptahindrana og bættri umgjörð í samkeppnismálum gætu stjórnvöld stuðlað að auknu vöruúrvali og samkeppni hér á landi. Að lokum telur Viðskiptaráð að stjórnvöld ættu að liðka sérstaklega fyrir erlendri fjárfestingu með einfaldara regluverki og skilvirku eftirliti.
Spurður hvernig hann telji stefnu íslenskra stjórnvalda ríma við þessar tillögur nefnir Gunnar að salan á Íslandsbanka hafi verið jákvætt skref. Þá segist hann vona að hagræðingartillögum starfshóps ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru í mars verði hrint í framkvæmd. Þær gætu skilað sér í miklum framförum í samkeppnishæfni landsins strax á næsta ári.
Gunnar nefnir þó önnur frumvörp, svo sem veiðigjaldafrumvarpið, þar sem stjórnvöld séu ekki á réttri leið hvað varðar samkeppnishæfnina. „Það er margt gott, en margt ekki jafn gott.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.