Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur, stefnir á það að leiða lista Samfylkingarinnar í næstu sveitarstjórnarkosningum. Hún kveðst ánægð með nýja fylgiskönnun í borginni þar sem Samfylkingin bætir verulega við sig.
Þetta kemur fram í samtali hennar við mbl.is.
„Ég ætla að halda áfram, ekki spurning. Ég er ekki búin í Reykjavík. Ég brenn fyrir því að borgin okkar verði betri og að finna árangur – þá langar manni að gera meira,” segir hún og svarar játandi þegar hún er spurð hvort hún hyggist sækjast eftir því að vera oddviti Samfylkingarinnar.
Heiða var í 2. sæti á lista Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar en eins og frægt er orðið þá skellti Dagur B. Eggertsson, þáverandi oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, sér í landsmálin og er nú á þingi fyrir Samfylkinguna.
Viðskiptablaðið birti könnun Gallups í dag af fylgi flokkanna í Reykjavík. Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur með ríflega 31% fylgi en Samfylkingin bætir við sig sex prósentustigum á milli kannanna og mælist nú með 26% fylgi.
Meirihlutinn heldur einnig velli samkvæmt könnunni, sem hann gerði ekki í könnun sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið í mars.
„Það er alltaf gott að fá góða mælingu, en við finnum líka fyrir miklum stuðningi og miklum meðbyr. Þetta er öflugur meirihluti, samstíga og hefur verið að takast á við stór verkefni. Þannig það er gleðilegt að borgarbúar taka eftir því og vilja áframhaldandi festu í stjórn borgarinnar,” segir Heiða.
Í lok febrúar mynduðu Samfylkingin, Píratar, Sósíalistar, Flokkur fólksins og Vinstri græn nýjan meirihluta.
Í mars framkvæmdi Gallup könnun fyrir Viðskiptablaðið og samkvæmt henni var meirihlutinn fallinn strax, með aðeins 10 borgarfulltrúa. Núna myndu flokkarnir í meirihluta hins vegar fá 12 borgarfulltrúa og meirihlutinn heldur því velli, en 12 borgarfulltrúa þarf til að mynda meirihluta.
Heiða segir að meirihlutinn hafi sett stór verkefni í gang frá því hann tók við og nefnir hún leikskólamálin, fjármálin og húsnæðisuppbyggingu.
Þrátt fyrir að kosningar fari fram í maí á næsta ári segir Heiða að í raun sé alltaf kosningabarátta í gangi. Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, sagði einnig fyrr á árinu að kosningabaráttan væri byrjuð.
„Ég held að það fólk sem talar inn í átök og að aðrir séu ómögulegir og þeir séu bestir, ég held að það sé ekki það sem Reykjavíkurborg þurfi á að halda núna. Við þurfum samtal, við þurfum fólk sem leggur ekki málin til hliðar og yddar þau bara fyrir kosningar. Við þurfum stefnufestu og duglegt fólk til að stjórna borginni, við erum á góðri leið þar og ég vona að við fáum tækifæri til að halda því áfram,” segir Heiða.