„Landsréttur sneri við átta ára fangelsisrefsingu og sakfellingu héraðsdóms og sýknaði með vísan til annarrar málsgreinar tólftu greinar almennra hegningarlaga, það er að maður hafi orðið svo skelfdur eða forviða að hann gat ekki gætt sín og metur þar með atburðarásina þannig að um eina atburðarás hafi verið að ræða á meðan héraðsdómur braut atburðarásina niður.“
Þetta segir Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður sem annaðist málsvörn Steinþórs Einarssonar á síðari stigum manndrápsmáls er upp kom á Ólafsfirði í október 2022, en eins og mbl.is greindi frá í dag hefur Hæstiréttur nú staðfest sýknudóm Landsréttar í málinu og telst Steinþór þar með saklaus af andláti Tómasar Waagfjörð eftir heiftarleg átök þeirra.
Ræddi Vilhjálmur málið við mbl.is og aðdraganda sýknudóms Hæstaréttar í dag, en sú grein hegningarlaganna sem hann vísar til, sú tólfta, tiltekur sérstaklega í annarri málsgrein sinni að fari maður út fyrir takmörk þess sem telst leyfileg nauðvörn, vegna þess hve skelfdur eða forviða hann hafi orðið við atlögu að honum, og hafi þar með ekki getað gætt sín, skuli honum ekki refsað.
Segir Vilhjálmur héraðsdóm hafa litið fyrst á atlögu Tómasar heitins að Steinþóri og svo skoðað varnarviðbrögð Steinþórs sem hafi að mati dómsins verið annar kafli atburðanna sem spunnust af því að eiginkona Tómasar kom á heimili vinkonu sinnar og hafðist þar við þrátt fyrir að maður hennar reyndi með ítrekuðum símtölum að fá hana heim.
Þegar hvorki gekk né rak fór Tómas heim til vinkonunnar þar sem Steinþór var þá staddur einnig, en þau eiginkona Tómasar eru æskuvinir. Hafði vinkonan þá tjáð Tómasi að kona hans væri á förum til Reykjavíkur.
Til orðahnippinga kom og sögðu vitni Tómas hafa dregið upp hníf og ráðist nær fyrirvaralaust á Steinþór. Eftir átök milli þeirra lést Tómas eftir að hafa hlotið tvö stungusár, annað í slagæð í mjöðm.
„Að mínu mati var þarna ekki um tvær ólíkar atburðarásir að ræða,“ segir Vilhjálmur, „þetta voru einhverjar sekúndur, það var ekki hægt að setja nein skil þarna og eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að meta það hvort sakaður maður í þessari stöðu hafi orðið skelfdur eða forviða nema með því að horfa á framburð hans sjálfs,“ heldur hann áfram.
Atlögunni, sem hinn látni átti upptökin að, hafi ekki verið lokið þegar Steinþór brást við henni og varði hendur sínar. „Bæði Landsréttur og Hæstiréttur hafna því. Kringumstæður eru með þeim hætti að maður kemur inn á dvalarstað þar sem annar situr og spjallar við vinkonu sína inni í eldhúsi. Hann dregur svo skyndilega upp hníf og stingur Steinþór, fyrst í lærið og reynir svo að stinga hann í hálsinn, en hann nær að beygja sig frá svo hnífurinn fer í kjálkann og brýtur jaxl í munni hans,“ lýsir Vilhjálmur.
Merki eftir hnífstungur hafi verið að finna hvort tveggja á gluggatjöldum og baki stólsins sem Steinþór sat í, „þannig að tilraunirnar voru fleiri en stungurnar tvær sem hittu. Ákærði tekur til við að reyna að bjarga eigin lífi sem hann réttilega mátti að mati bæði Landsréttar og Hæstaréttar,“ segir lögmaðurinn.
Þetta er hressileg U-beygja í málinu, frá Héraðsdómi Norðurlands eystra og upp í Landsrétt, átta ára dómur og hins vegar sýkna. Slík mál eru væntanlega fátíð í íslenskri réttarframkvæmd?
„Ég held að þetta sé nánast einstakt,“ svarar Vilhjálmur, „ég man eftir einum dómi öðrum í Hæstarétti þar sem annarri málsgrein tólftu greinar hefur verið beitt og hann féll í kringum 1940 minnir mig,“ segir hann enn fremur og kveður ákæruvaldið hafa nálgast Ólafsfjarðarmálið með undarlegum hætti.
„Ákæruvaldið gerir refsikröfu í máli þar sem lágmarksrefsing er fimm ár, en segir í málflutningi í héraði að það geri ekki athugasemdir við að héraðsdómur fari niður úr því í ljósi aðstæðna og jafnvel að engin refsing verði dæmd. Héraðsdómur ákveður að hlusta ekki á refsitillögu ákæruvaldsins, sem er mjög óvenjulegt, og dæmir átta ára fangelsi með þessum mjög skrýtna rökstuðningi þar sem allt fór að snúast um einhvern jógabolta sem var þarna í húsnæðinu og sönnunarmatið var bara rangt að mínu mati,“ segir hann.
Vilhjálmur var ekki verjandi Steinþórs í héraði, en segir að hann hafi grunað sterklega að niðurstöðunni yrði snúið þegar hann las héraðsdóminn. Hann heldur áfram:
„Svo áfrýjar ákærði og þá mætir ríkissaksóknari til leiks í Landsrétti, eftir kröfu ákæruvaldsins í héraði um að fara niður úr lágmarksrefsingunni eða ákærða jafnvel ekki gerð refsing. Þá allt í einu mætir ákæruvaldið fyrir Landsrétt með refsiþyngingarkröfu og vill fá þyngri dóm en átta árin sem þeim fannst sjálfum of mikið í héraði,“ segir Vilhjálmur.
Hann telur kröfugerð ákæruvaldsins fyrir Hæstarétti heldur ekki hafa gengið upp. „Ef ákæruvaldið vildi láta endurmeta huglæga afstöðu ákærða á verknaðarstundu var ekki hægt að gera það, miðað við núverandi réttarfar, með öðrum hætti en að krefjast ómerkingar á dómi Landsréttar og heimvísunar málsins því Hæstiréttur endurmetur ekki munnlega sönnunarfærslu sem Landsréttur hefur metið og eftir réttarfarsbreytingu eru ekki munnlegar skýrslutökur í Hæstarétti,“ rökstyður hann.
Hvað með hugsanlega bótakröfu Steinþórs nú þegar málinu er lokið á öllum dómstigum og með þessari niðurstöðu?
Vilhjálmur segir athygli sakborningsins fyrrverandi eðlilega vera annars staðar fyrst um sinn. „Hann er fyrst og fremst ánægður með þessa lögfræðilega réttu niðurstöðu og fagnar henni. Þegar menn eru búnir að vera undir svona málsmeðferð í nokkur ár er staðan oft þannig að þegar komin er hagstæð niðurstaða er það ekkert endilega efst í huga viðkomandi að halda áfram í einhverjum lagaþrætum, en við skulum bara láta tímann leiða það í ljós. Ég tel að hann eigi bótakröfu á íslenska ríkið,“ segir Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður að lokum um mál Steinþórs Einarssonar sem hófst á Ólafsfirði aðfaranótt 3. október 2022.