Tómas hleypur hvorki með né styrkir

Tómas Guðmundsson skáld mun hvorki hlaupa með Valdimar Sverrissyni, ljósmyndara og uppistandara, né styrkja hann í Reykjavíkurmaraþoninu í sumar enda er hann löngu fallinn frá, auk þess sem ekki eru vasar á líkklæðum.

Þetta kemur fram í grínmyndbandi sem Valdimar hefur gert í tilefni af hlaupinu og sjá má hér að neðan. Tómas lofar þó að vera með hlauparanum í anda.  

Í sumar eru liðin tíu ár síðan Valdimar missti sjónina í kjölfar aðgerðar þar sem æxli var fjarlægt úr heila hans. Af því tilefni ætlar hann að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu 23. ágúst og safna um leið áheitum fyrir Grensásdeild Landspítalans en þar fékk hann á sínum tíma góða umönnun og mikilvæga endurhæfingu eftir aðgerðina.

„Þetta verður áttunda hlaupið mitt og ég hef safnað fyrir ýmsa aðila en þótti tilvalið að gera það núna fyrir Grensásdeildina af þessu tilefni," segir Valdimar. 

Hann æfir nú af kappi ásamt aðstoðarmanni sínum, Jósteini Einarssyni, sem hleypur með honum sem fyrr. „Hann brosir út að eyrum fyrir það eitt að fá að hlaupa með mér,“ segir Valdimar. 

Hann segir gaman að leika sér að tölum í þessu sambandi. „Það eru tíu ár síðan ég missti sjónina og þetta verður áttunda hlaupið. Tíu plús átta eru 18 og svo skemmtilega vill til að ég á einmitt afmæli í dag, 18. júní."

Valdimar deilir afmælisdegi með sjálfum Sir Paul McCartney sem talar einmitt ómeðvitað til hans í Bítlalaginu fræga Birthday:

„They say it's your birthday
Well, it's my birthday too, yeah
They say it's your birthday
We're gonna have a good time“  

Valdimar náði aldrei að sjá Sir Paul á tónleikum meðan hann hafði sjónina en hefur í tvígang verið á tónleikum hans síðan, í New York 2017 og aftur í Lundúnum 2018. Fékk þá bæði Ronnie Wood úr The Rolling Stones og hinn eftirlifandi Bítilinn Ringo Starr í kaupbæti sem gesti á sviðinu. 

Fór að grínast eftir að hann missti sjónina

Þegar Valdimar varð blindur fór hann fyrst að grínast fyrir alvöru enda hafði hann aldrei áður þorað að standa frammi fyrir hópi fólks og fara með gamanmál. Valdimar hóf einnig að gera grínmyndbönd þar sem hann fékk þjóðþekkta einstaklinga til að leika á móti sér. 
Í nýja myndbandinu koma við sögu Biggi í Gildrunni, Friðrik Álfur pönkari, Saxi læknir, Eiríkur Fjalar, Konungur rokksins og séra Pétur Þorsteinsson. Að ógleymdum Tómasi Guðmundssyni. 
Tómas Guðmundsson og Valdimar Sverrisson fara yfir málin.
Tómas Guðmundsson og Valdimar Sverrisson fara yfir málin.
Ekki nóg með það. Valdimar og Pétur hafa ákveðið að sameina krafta sína og verða með uppistandssýningu í Hannesarholti þann 30. ágúst klukkan 20:00. Miðaverð er kr. 2.500 og allur ágóði sýningarinnar rennur til Grensásdeildar LSH. 
Valdimar stefnir á að safna einni milljón króna. 
Guðrún Bragadóttir, deildarstjóri endurhæfingardeildar á Grensás, er þakklát fyrir framtakið og segir að fénu verði varið til kaupa á snjalldýnu með snúningstækni. Hún hefur þá eiginleika að draga úr þrýstingssárum, auk þess sem gróandinn í sárum verður betri. Ein slík dýna hefur þegar verið tekin í notkun á deildinni og gefið góða raun, að sögn Guðrúnar. 
„Þessar dýnur gera það að verkum að óþarfi er að snúa fólki á nóttunni sem þýðir að fólk sefur betur og færra starfsfólk þarf að vera til staðar,“ segir Guðrún. 
Valdimar og séra Pétur Þorsteinsson verða saman með uppistand 30. …
Valdimar og séra Pétur Þorsteinsson verða saman með uppistand 30. ágúst.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert