Rúnar Sigurjónsson, varaþingmaður Flokks fólksins, er hneykslaður á mótmælum félagsins Ísland-Palestína á 17. júní. Segir hann í Facebook-færslu að í gær hafi fólk mótmælt með hrópum og köllum, öskrum og skrílslátum. Það telur Rúnar óviðeigandi og setja svip sinn á hátíðleika dagsins.
„Mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna barátta ykkar samtaka þarf að vera með þeim hætti að koma saman markvisst til að setja svartan blett á þjóðhátíðardaginn. Daginn sem við Íslendingar fögnum stofnun lýðveldis okkar og sjálfstæði þjóðarinnar og viljum eiga saman notalegan, ánægjulegan og umfram allt friðsælan gleðidag,“ segir Rúnar.
„Nú er nóg komið í mínum huga og ég verð eins og áður sagði að fordæma þessi mótmæli og treysta því að þið takið tillit til okkar sem viljum gleði og bros á þjóðhátíðardaginn okkar. Ég skora því á félagið Ísland-Palestína að sýna þjóðhátíðardegi okkar Íslendinga þá örlitlu virðingu að láta af þessu háttarlagi á 17. júní.“
„Alla aðra daga skal ég virða ykkar mótmæli, sem þið eruð vissulega í fullum rétti á að halda, nema svona á 17. júní. Þann dag er þetta í mínum huga ekki ásættanlegt og er, hvað mig varðar, ykkur og málstað ykkar eiginlega bara til háborinnar skammar,“ segir Rúnar.
Ummæli Rúnars hafa fengið nokkurn hljómgrunn og margir hafa lagt orð í belg. Þeirra á meðal er sonur Ingu Sæland, Baldvin Þór Ólason, starfsmaður Flokks fólksins og fyrrum stjórnarmaður í Póstinum. Leggur hann orð í belg og segir: „Þađ ætti bara ađ senda þetta liđ til Gaza. Yrđi vel tekið á móti þeim.“
Þá hafa fyrrverandi og núverandi þingmenn FF sýnt velþóknun sína með því að „gefa læk“ og má þar nefna Eyjólf Ármannsson innviðaráðherra, Sigurjón Þórðarson, þingmann flokksins úr Norðausturkjördæmi, og Tómas Tómasson, kenndan við Hamborgarabúlluna, en hann sat á þingi fyrir FF á síðasta þingi.