40 manns komu að lögregluaðgerðunum

Frá aðgerðum lögreglu á Raufarhöfn.
Frá aðgerðum lögreglu á Raufarhöfn. Ljósmynd/Aðsend

Fjörutíu manns komu að aðgerðum lögreglu í tengsl­um við fíkni­efna­fram­leiðslu í gær. Megnið af þeim voru lögreglumenn en einnig sérfræðingar.

Í kjöl­far hús­leita á nokkr­um stöðum á land­inu fóru handtökur fram og verður farið fram á gæsluvarðhald yfir sakborningum í dag.

„Hún var á mörgum stöðum en það er nokkuð stór aðgerð,“ segir Skarp­héðinn Aðal­steins­son, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á Norður­landi eystra, í samtali við mbl.is.

Aðspurður segist hann ekki hafa upplýsingar um hversu langt gæsluvarðhaldið verður.

Húsleitir taka lengri tíma

Aðgerðirnar hóf­ust um klukk­an 10 í gær­morg­un og var lög­regl­an á Norður­landi eystra í sam­starfi við lög­regl­una á Vest­ur­landi, lög­regl­una á höfuðborg­ar­svæðinu og sér­sveit rík­is­lög­reglu­stjóra.

Spurður hvers vegna aðgerðirnar hefðu tekið svona langan tíma segir Skarphéðinn húsleitir geta verið mjög tímafrekar aðgerðir, sérstaklega ef um umfangsmeiri mál er að ræða, eins og í þessu tilfelli. „Þá tekur svona vettvangsvinna bara langan tíma.“

Í til­kynn­ingu lög­reglu seg­ir að lög­regl­an á Norður­landi eystra hafi um nokk­urt skeið unnið að rann­sókn á skipu­lagðri brot­a­starf­semi sem tal­in sé tengj­ast fíkni­efna­fram­leiðslu. Með aðgerðunum í gær hafi verið unnt að staðfesta þess­ar grun­semd­ir en rann­sókn máls­ins sé á frum­stigi.

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert