Eldur kom upp í Efnalauginni við Háaleitisbraut

mbl.is/Eyþór

Eldur kom upp í Efnalauginni Björg við Háaleitisbraut í nótt. Allar stöðvar slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins voru kallaðar út og þá voru lögreglubílar sendir á vettvang.

Enginn var í húsinu en slökkviliðsmenn urðu varir við sprengingar á vettvangi þegar þeir komu á staðinn.

Davíð Friðjónsson varðstjóri segir í samtali við mbl.is að líklega hafi þær orðið í einhverjum brúsum eða hugsanlega verið um reykssprengingar að ræða.

Aðspurður segir Davíð að alltaf sé hætta á að eldur geti breiðst út en með rétt handbrögð og snöggt viðbragð tókst slökkviliðsmönnum að ráða niðurlögum eldsins fljótt og örugglega.

„Það var mikill eldur þegar við komum á staðinn og töluvert eignatjón fyrirséð,“ segir Davíð.

Segir hann að ekki hafi verið talin þörf á að vakta vettvanginn eftir að búið var að slökkva í öllu og reykræsta nærliggjandi skrifstofurými.

„Við kláruðum vettvanginn eitthvað upp úr fjögur og þá afhentum við hann lögreglu, sem lokaði honum þar til rannsókn hefst.“

Efnalaugin Björg er þriðju kynslóðar fjölskyldufyrirtæki, stofnað 1953, með starfsemi bæði á Háaleitisbraut og í Mjódd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert