Grímur Grímsson, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi yfirlögregluþjónn, segir að lögreglumál er snúa að börnum hafi reynst honum erfiðust að eiga við andlega þegar hann starfaði við löggæslu.
Átti það bæði við þegar um var að ræða heimilisofbeldi og þegar börn dóu.
„Ég finn það á félögum mínum að þetta eru mál sem sitja mest í mönnum og ég get tekið undir það,“ segir Grímur í Dagmálum.
Eins segir hann snjóflóð í Skutulsfirði, Súðavík og á Flateyri á árunum 1994-1995 hafa reynst honum erfið. „Þetta eru mál sem sitja í manni,“ segir Grímur.
Hann segist ekki hafa sótt sér formlega sálfræðiþjónustu þó að hann þurfi eflaust á því að halda.
„En það er talsverður félagastuðningur í lögreglunni og við fáum ákveðna þjálfun í því til stuðnings við félagana. Hann er bæði formlegur og óformlegur og félagarnir eru þeir sem best er að tala um svona við,“ segir Grímur.
„Svo er það þannig að þegar maður er í erfiðum málum þá er maður einbeittur í því og getur ekki leyft tilfinningunum að þvælast fyrir manni á þeim tímapunkti. En svo gerist það síðar að tilfinningar koma upp og þá þarf maður einhvern veginn að vinna með það.“