Víða um land hafa ¡Hola!-skilti skotið upp kollinum við holur í vegum. Sökudólgurinn er Nicolas, sem hefur það markmið að merkja allar holur á Íslandi í samstarfi við Colas Ísland ehf.
„Með þessu vonumst við til að vekja athygli á ástandi vega hringinn í kringum landið og hvetja fólk um leið að tilkynna holur sem verða á vegi þeirra,“ segir Sigþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Colas.
Með herferðinni axli fyrirtækið samfélagslega ábyrgð í þeirri von að hvetja þingmenn og fjárveitingarvaldið til að sinna sínu hlutverki og gæta að öryggi á vegum.
Colas hefur verið í samstarfi við Nicolas sem ferðast um landið, tekur myndir af holum og birtir á samfélagsmiðlum.
Á TikTok-síðu sinni sýnir Nicolas þær holur sem hann hefur nú þegar merkt með ¡Hola!-skilti, en yfirlýst markmið hans er að merkja allar holur á Íslandi.
Aðspurður segir Sigþór herferðina til þess gerða að hvetja þingmenn og fjárveitingaryfirvaldið til þess að opna augun fyrir ástandinu á vegunum.
„Í tæpa tvo áratugi hefur allt of litlu fé verið varið til viðhalds og nýframkvæmda á vegakerfi landsins. Vegagerðin hefur verið fjársvelt svo árum skiptir,“ segir hann.
Samtök iðnaðarins hafi bent á að viðhaldsskuldin á vegunum sé komin upp í 250 milljarða, en ef reglubundnu viðhaldi og eðlilegum endurbótum hefði verið sinnt síðustu ár væri sú upphæð mun lægri.
Í samstarfi við Félag íslenskra bifreiðaeigenda og Loftmyndir ehf. hefur Colas sett upp rafrænt kort af Íslandi þar sem sjá má holurnar sem tilkynnt hefur verið um til FÍB síðastliðið ár sem nálgast má hér.
Sigþór segir fjölmörg óhöpp og slys - jafnvel banaslys - hafa verið rakin beint til ástands vega. „Þetta er dauðans alvara, og þetta eru slys sem hugsanlega hefði verið hægt að koma í veg fyrir eða í hið minnsta minnka verulega líkurnar á.“
Sigþór segir lausnirnar á vanda vegakerfisins í sjálfu sér einfaldar, en þær séu fjárfrekar. „Við verðum að stórauka fjárveitingar til vegagerðar, viðhalds og endurbóta til að geta lyft vegakerfinu okkar á hærra plan.“
Það margborgi sig að fjárfesta í vegunum og halda þeim almennilega við.