Sjóvá býður nú upp á meðgöngutryggingu

„Við gerum okkur grein fyrir að sumt verði aldrei bætt …
„Við gerum okkur grein fyrir að sumt verði aldrei bætt en það er hægt að veita rými og svigrúm á erfiðum stundum,“ segir Hrefna. Ljósmynd/Colourbox

Frá og með deginum í dag, kvenréttindadeginum 19. júní, geta barnshafandi konur keypt meðgöngutryggingu hjá Sjóvá.

„Okkur fannst það við hæfi, að kynna þessa sögulegu tryggingu á kvenréttindadaginn,“ segir Hrefna Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri forvarna hjá Sjóvá, í samtali við mbl.is; slík trygging hafi hingað til ekki staðið til boða á Íslandi.

„Við gerum okkur grein fyrir að sumt verði aldrei bætt en það er hægt að veita rými og svigrúm á erfiðum stundum,“ segir Hrefna. Tryggingin sé viðleitni til að auka öryggistilfinningu á meðgöngu og við fæðingu og styðja við fjárhagslegt öryggi fjölskyldunnar „ef eitthvað kemur upp á“.

„Það er í mörg horn að líta og þetta er viðkvæmt mál“

„Það skýtur svolítið skökku við að það hafi ekkert verið hugsað um þennan mikilvæga tíma í lífi margra kvenna í tryggingum áður,“ segir Hrefna. Meðgöngutryggingin sé mikilvæg vernd við heilsu barnshafandi kvenna.

„Hingað til hefur ákveðið skarð verið á stuðningi við verðandi mæður vegna þess að það hefur ekki verið mögulegt að tryggja sig sérstaklega fyrir því sem getur komið fyrir á meðgöngu eða í fæðingu.“

Með meðgöngutryggingunni eiga barnshafandi konur kost á greiðslu til að létta undir ef eitthvað kemur upp á og getur greiðslan þá brúað ákveðið bil, til dæmis vegna tekjutaps eða sálfræðikostnaðar.

„Okkur var mikið í mun að vanda okkur við þetta verkefni, það er í mörg horn að líta og þetta er viðkvæmt mál, og þess vegna þróuðum við hana í samstarfi við félögin Einstök börn og Gleym mér ei. Bæði þekkja þau vel hvar skórinn kreppir ef eitthvað bjátar á á þessum viðkvæma tíma í lífi foreldra og barna. Þetta hefur ekki verið til staðar áður.“

Helstu atriði meðgöngutryggingarinnar

Trygginguna, sem er að norrænni fyrirmynd en hefur verið aðlöguð að íslensku samfélagi, er hægt að kaupa frá staðfestri meðgöngu og þar til móðir er gengin 32 vikur. Hún tekur gildi á 17. viku meðgöngu, áður en 20 vikna sónar fer fram, sem er ólíkt því sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum.

Kostnaður við trygginguna eru 30.000 krónur í eingreiðslu. Verðandi mæður geta keypt hana á netinu og ekkert áhættumat þarf að fara fram. Ef kemur að því að þær þurfi að nýta trygginguna verða bætur greiddar út um leið, „þú þarft þá ekki að bíða eftir einhverju mati heldur kemur tryggingin strax inn þegar þörfin er mest“.

„Málið með tryggingar er að þær endurspegla lífið. Þær eiga að grípa inn í á álagspunktum í lífinu og létta undir. Því þurfa þær að vera í stöðugri endurskoðun, til að endurspegla lifnaðarhætti okkar og aukna þekkingu og skilning.“

Tryggingin nær yfir:

  • Fósturlát.
  • Þungunarrof eftir 17. viku, af læknisfræðilegum orsökum.
  • Andvana fæðingu.
  • Dánarbætur ef ungbarn deyr innan við mánuð frá fæðingu.
  • Dánarbætur ef móðir lætur lífið.
  • Bætur vegna sjúkrahúslegu móður eða barns.
  • Bætur vegna ákveðinna meðgöngu- og fæðingartengdra vandamála hjá móður.
  • Sálfræðikostnað ef greitt er úr tryggingunni vegna annarra bótaþátta.
  • Meðfædd heilkenni og sjúkdóma sem greinast á fyrsta ári barnsins.
Meðgöngutrygging Sjóvá er að norrænni fyrirmynd en hefur verið aðlöguð …
Meðgöngutrygging Sjóvá er að norrænni fyrirmynd en hefur verið aðlöguð að íslensku samfélagi. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Stuðningur við börn með alvarlega meðfædda sjúkdóma

Meðgöngutryggingin gildir sem fyrr segir frá 17. viku meðgöngu og þar til barnið er eins mánaða, en tryggingin tekur einnig til meðfæddra sjúkdóma sem greindir eru á fyrsta aldursári barnsins.

„Það hefur einnig verið óbrúað bil í stuðningi við börn með alvarlega meðfædda sjúkdóma og meðgöngutryggingin nær yfir þá sem greinast á fyrsta ári barnsins. Eftir það getur barnatryggingin tekið við.

Ef hún tekur við þá er barnið með samfellda, öfluga vernd frá 17. viku í móðurkviði að 20. aldursári, af því að barnatrygging gildir frá eins mánaðar til tuttugu ára,“ segir Hrefna.

„Þetta getur skipt öllu máli“

Meðgöngutrygging Sjóvá er viðbótarvernd við það sem barnshafandi konur njóta í almenna kerfinu hér á landi eins og ókeypis meðgönguskoðanir, fæðingarhjálp og eftirfylgd. Í almenna kerfinu er einnig mögulegt að sækja um sorgarleyfi frá launuðum störfum eftir barnsmissi og sorgarstyrk og hefur þessi réttur nýlega verið rýmkaður.

Að lokum ráðleggur Hrefna fólki að vera vakandi fyrir því hvernig það er tryggt og endurskoða reglulega, út frá breyttum lífsstíl eða fjölskylduaðstæðum, hvort það hafi næga vernd fyrir sínar aðstæður.

„Tryggingar geta reynst fólki flóknar og eitthvað sem erfitt er að setja sig inn í og það gefur sér þá ekki tíma í þetta. En þetta getur skipt öllu máli ef eitthvað kemur óvænt upp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert