Veiði í Elliðaám hófst í morgun. Ragnheiður Thorsteinsson, formaður Stangveiðifélags Reykjavíkur, lýsti formlega yfir opnun ánna og bauð svo venju samkvæmt borgarstjóranum í Reykjavík að ganga til veiða.
Viðstöddum var þá boðið upp á morgunkaffi og með því.
Heiða Björg Hilmarsdóttir borgarstjóri beið ekki boðanna og óð út í árnar með Ragnheiði sér til halds og trausts.
Árnar eru í dag opnaðar fyrir veiði í 86. sinn en borgarstjóri hefur tekið þátt í opnun þeirra frá árinu 1960.
Í tilkynningu frá Stangveiðifélagi Reykjavíkur segir að laxinn sjáist þegar genginn í árnar og að búast megi við líflegri stemningu við árbakkann.
Spennandi verði að sjá hvar fyrsti laxinn kemur á land, en hann sé líklega sá lax sem mest sé myndaður á landinu á hverju ári.