„Við skulum ekki gleyma því að það er Íran sem er ekki síst ógn við öryggi í Mið-Austurlöndum og þá víðar,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.
Íran hefur brotið ramma Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar og hefur verið bent á það en hún segir samtal, samninga og alþjóðasamskipti skipta máli til þess að koma Íran að borðinu og fá ríkið til að samþykkja afvopnun þegar kemur að kjarnorkumálum.
„Öðruvísi verður ekki tryggður friður,“ segir Þorgerður þegar blaðamaður náði af henni tali í dag.
Þorgerður segir mikilvægt að Ísland sýni samstöðu í þessum átökum og geri það sem þarf til að stuðla að friði og hjálpa lýðræði og friðinum, rétt eins og Ísland gerir í átökunum í Úkraínu. „Þetta helst í hendur: lýðræði, frelsi og friður.“
Hún segist hafa komið á fund utanríkismálanefndar á miðvikudag til þess að ræða mál Írans og Ísrael og upplýsti nefndina um ýmsar upplýsingar sem hún hafði ekki aðgang að.
Hún segir að það þurfi að gera allt til þess að koma í veg fyrir stigmögnun átaka Íran og Ísrael. „Það verður að mínu mati ekki gert án aðkomu Bandaríkjanna en svo skiptir máli að stóru ríkin, Frakkland, Þýskaland og Bretland eru að hitta utanríkisráðherra Íran,“ segir Þorgerður. Hún segist hafa heyrt þær samræður ganga vel.
„Íran er ógn en það þýðir ekki að það megi ráðast ólöglega á landið en Íran er viðfangsefnið sem stóru ríkin þurfa að leysa.“
Hún segir þessi átök vera grimmileg og að þau geti stigmagnast og hún segir mikilvægt að stóru ríkin geri það sem þarf til þess að það gerist ekki.