Stærstu málin þegar kemur að réttindum barna í Úkraínu er að tryggja samfellu í menntun sem og heilbrigðisþjónustu, þar með talið geðheilbrigðisþjónustu og aðgengi að hreinu vatni. Þetta segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, að loknum málfundi um vernd úkraínskra barna.
„Börn í Úkraínu hafa farið á mis við mörg ár í skóla á staðnum, fyrst út af covid og svo út af stríðinu.“ Hún segir búið að byggja skóla neðanjarðar á víglínusvæðum Úkraínu, sem virka þá einnig sem sprengjubyrgi. Til stendur að byggja mun fleiri slíka skóla.
„Hver og einn skóli tryggir mörg hundruð börnum tækifæri til að mæta aftur í skólann og hitta vini sína, leika sér og njóta samveru og læra í samveru með kennara,“ segir Birna.
Birna segir UNICEF vinna mikið með geðheilbrigðisstuðning sem úkraínskum börnum er veittur. Hún segir skipta miklu máli að börnin vinni úr áföllum sem þau verða fyrir í stríðinu. Hún segir uppbyggingu innviða einnig skipta máli til þess að tryggja að börn fái áfram að vera börn og geti leikið sér og notið menningar og lista.
„Ísland hefur tekið merkilegt forystuhlutverk í stuðningi sínum við Úkraínu á síðustu árum og stjórnvöld veita margvíslegan stuðning við Úkraínu, eins og uppbyggingu barnahúsa þar í landi,“ segir Birna.