Tæpur fjórðungur notar enga sólarvörn í góðu veðri

Sólarvarnarvenjur Íslendinga voru teknar fyrir í nýrri könnun Prósents.
Sólarvarnarvenjur Íslendinga voru teknar fyrir í nýrri könnun Prósents. Samsett mynd/Ljósmynd/Unsplash

Tæpur fjórðungur landsmanna notar aldrei sólarvörn á góðviðrisdögum.

Konur eru duglegri við notkun sólarvarnar en karlar og fólk á aldrinum 35-44 ára er sá aldurshópur sem notar mesta sólarvörn.

Þetta kemur fram í nýrri könnun sem framkvæmd var á vegum Prósents.

Átján prósent nota alltaf sólarvörn, 23% aldrei

Spurningin sem stóð frammi fyrir þátttakendum var: Notar þú sólarvörn á góðviðrisdögum á Íslandi?

Af þeim sem svöruðu sögðust 18% alltaf nota sólarvörn, 24% gera það oft, 35% stundum og 23% sögðust aldrei nota sólarvörn á góðviðrisdögum.

Konur líklegri en karlar

Samkvæmt könnuninni eru karlar mun líklegri til þess að sleppa sólarvörninni en konur, en rúmur þriðjungur karla (35%) segist aldrei nota sólarvörn.

Á móti er einungis einn tíundi kvenna sem segist gera slíkt hið sama.

Karlar eru líklegri til að sleppa sólarvörninni en konur.
Karlar eru líklegri til að sleppa sólarvörninni en konur. Graf/Prósent

Börn og ungmenni viðkvæmust fyrir sólinni

Fólk á aldrinum 35-44 ára er duglegast við að verja sig fyrir sólinni, en fólk yfir 65 ára gerir það síst.

Þrjátíu prósent ungmenna á aldrinum 18-24 ára nota aldrei sólarvörn, en samkvæmt vef Krabbameinsfélagsins er húð barna og unglinga í mestri hættu á sólskaða þar sem hún sé viðkvæmari en húð fullorðinna.

Aldursdreifing þeirra sem nota sólarvörn.
Aldursdreifing þeirra sem nota sólarvörn. Graf/Prósent
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert