Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, sérstakur erindreki framkvæmdastjóra Evrópuráðsins gagnvart úkraínskum börnum og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir málefni úkraínskra barna sem rænt hefur verið yfir til Rússlands vera grundvallaratriði þegar kemur að réttlæti, frelsi og mannréttindum barna.
Á opnum fundi um réttlæti og vernd barna í skugga stríðsátakanna á milli Rússlands og Úkraínu sagði Yulia Kyrpa, stjórnarmaður í tjónaskránni og framkvæmdastjóri lögmannsstofunnar AEQUO, fegin yfir því að stríðið væri einungis innan Úkraínu, og hefur ekki breiðst út. Barátta Úkraínumanna verndi í raun alla Evrópu.
Aðspurð um orð hennar segist Þórdís taka undir þau heilshugar.
„Metnaður Rússlands nær langt út fyrir Úkraínu. Við ættum ekki að búast við þakklæti frá Úkraínumönnum heldur þvert á móti vera þakklát þeim fyrir að standa gegn Rússum. Þetta er sameiginlegt markmið okkar allra, að Úkraínumenn sigri í þessu stríði og Rússar tapi því,“ segir Þórdís í samtali við mbl.is.
„Við lifum tíma þar sem við vitum í rauntíma að það er verið að stela börnum, svipta þau þjóðerni sínu, foreldrum, fjölskyldu, tungumáli, menningu og sögu. Auk þess er framið ofbeldi gegn þeim og þau jafnvel send í herinn,“ segir hún jafnframt.
Þórdís bendir á að verkefni hennar nái til allra úkraínskra barna í Úkraínu sem og barna sem dvelja í öðrum aðildarríkjum Evrópuráðsins, en alvarlegasti þátturinn í starfi hennar sé málefni stolinna barna.
„Það er í okkar sameiginlegu höndum að finna leiðir til að ná þessum börnum til baka og draga menn til ábyrgðar fyrir slíka glæpi. Það er mikill heiður að fá að sinna þessum störfum,“ segir Þórdís.
Spurð um tjónaskrána segir hún hana vera fyrsta raunverulega skrefið í átt að því að draga Rússa til ábyrgðar.
„Það er grundvallaratriði að skrásetja tjón á þennan hátt. Þetta ferli er mikilvægt skref í því að bæta fólki það tjón sem það hefur orðið fyrir. Við sjáum vonandi fljótlega frekari og jafnvel stærri skref í ábyrgðarskyldu gagnvart Rússlandi,“ segir hún.
Þórdís lýsir einnig mikilvægi þess að stærstu ríki heims taki réttar ákvarðanir varðandi ábyrgðarskyldu og aðstoð við Úkraínu.
„Við þurfum að gera okkar besta og taka ábyrgð okkar alvarlega en auðvitað ræður framganga stórra ríkja miklu um hvernig mál þróast,“ segir Þórdís að lokum.