Hrossabóndi sem ný heimildamynd fjallar um telur myndina ekki ná að fanga baráttu sína og því geti hann ekki lagt blessun sína yfir hana, þrátt fyrir að margt gott komi þar fram, en myndin hlaut nýverið verðlaun. Bóndinn segist ætla að gefa út bók um raunir sínar.
Ragnheiður Þorgrímsdóttur hefur í áratugi verið með hrossabúskap á Kúludalsá í Hvalfirði en hefur orðið að láta lóga meirihluta hrossa sinna, um 20 talsins, vegna bágrar heilsu þeirra. Eins og fram kemur í myndinni telur Ragnheiður flúormengun vegna stóriðju í Hvalfirði vera orsakavald vanheilsu hrossanna. Matvælastofnun hefur hins vegar verið á öðru máli.
Heimildamyndin heitir Bóndinn og verksmiðjan og var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni Skjaldborg á Patreksfirði í júní. Þar hlaut heimildamyndin áhorfendaverðlaunin Einarinn fyrir flest atkvæði í áhorfendakosningu.
Ragnheiður sagði í samtali við blaðamann að margt gott væri gott í myndinni. Hún vildi ekki tjá sig nánar um málið að svo stöddu en sagði að hún myndi fjalla nánar um það í væntanlegri bók.
Myndin var í 11 ár í vinnslu, en Barði Guðmundsson, handritshöfundur og leikstjóri, og Hrafnhildur Gunnarsdóttir framleiðandi gáfu sig á tal við blaðamann mbl.is eftir frumsýningu myndarinnar á Skjaldborgarhátíðinni.
Aðspurð um tilurð myndarinnar segir Barði að upprunalega hafi hann gert 20 mínútna stuttmynd um Ragnheiði en þau eru systkinabörn. Hann segist síðar áttað sig á því að saga Ragnheiðar hafi verið efni í mynd í fullri lengd. Þá hafi hann fengið Hrafnhildi með sér í lið. Barði og Hrafnhildur segja að þeim hafi þótt mikilvægt að sýna fram á hvernig kaupin gerðust á eyrinni.
Bæði segja þau að meginmarkmið myndarinnar sé að ná fram réttlæti fyrir hrossabóndann Ragnheiði. Myndin fylgir baráttu Ragnheiðar fyrir málstað sínum. Ragnheiður telur að Matvælastofnun hafi ekki metið ástæðu heilsubilunar hrossanna rétt. Hún hefur farið í mál við íslenska ríkið, Umhverfisstofnun og Norðurál á Grundartanga vegna meintrar flúormengunar.
Ragnheiður Þorgrímsdóttir hrossabóndi tjáði sig um myndina í athugasemd á Facebook-færslu Skjaldborgar fyrir um viku síðan. Þar segist Ragnheiður ekki geta staðið með myndinni. Þetta kemur fram í athugasemdinni:
„Ég er bóndinn sem fjallað er um í myndinni. Þetta efni er vandmeðfarið. Bæði er það yfirgripsmikið og einnig þarf að tengja atburði og ekki vera hræddur við að styggja einhvern. Ég reyndi eins og ég gat að miðla upplýsingum til þeirra höfundanna en úrvinnsla þeirra er mér ekki að skapi. Þess vegna get ég ekki stutt þessa mynd.
Þarna er fólk sem hefur góð verkfæri í höndum og mikla tækniþekkingu en nær ekki að búa til mynd sem sýnir það sem raunverulega gerðist. Engu tauti var við þau komandi. Og hvað gerir bóndinn þá? Jú, hún settist niður fyrir rúmu ári síðan og hóf að skrifa.
Heimildir hafa verið varðveittar og fylla nokkrar möppur. Og viti menn, þarna nýttist námið í félagsfræði vel eins og svo oft áður. Handrit að bókinni „Barist fyrir veik hross. Frásögn úr grasrótinni“ er tilbúið og komið í vinnslu. Útgáfuhóf gæti orðið síðsumars. Vonast til að sem flestir gefi sér tíma til að lesa bókina!“
Höfundar skýrslu fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðið, Jakob Kristinsson prófessor og Sigurður Sigurðsson dýralæknir, tóku undir sjónarmið Ragnheiðar að einhverju leyti en árið 2013 leitaði ráðuneytið þeirra til að rannsaka veikindi hesta hennar.
Niðurstöður þeirra bentu til þess að styrkur flúoríðs í beinum hrossa Ragnheiðar væri fjórfaldur á við hross á öðrum svæðum. Þeir gátu ekki fullyrt að flúormengun væri orsök veikinda hrossanna en töldu „nær útilokað að þau mætti rekja til offóðrunar, hreyfingarleysis eða vankunnáttu í meðferð.“
Matvælastofnun hefur hins vegar áður gefið út að hrossunum hafi verið gefi of mikið fóður og þau hafi ekki verið viðruð nóg og af því stafi heilsubresturinn.
Barði og Hrafnhildur sögðu í samtali við blaðamann á hátíðinni að þau stefndu að því að sýna myndina í kvikmyndahúsinu Bíóparadís í haust. Þau sögðust vonast til þess að myndin vekti athygli á málefni Ragnheiðar.
„Okkar markmið með myndinni er að vekja fólk til umhugsunar. Við setjum hluti fram. Það er svona það besta sem við getum gert. Þetta er ekki rannsóknarmynd. Við erum ekki að reyna að útskýra allt,“ sagði Hrafnhildur.
„Við viljum bara aðallega að hún fái sínar bætur og að fólk sjái hvað hafi verið í gangi. Það er náttúrulega búið að eyðileggja búskapinn á þessari jörð,“ sagði Hrafnhildur á hátíðinni.
Blaðamaður hafði einnig samband við leikstjóra myndarinnar í kjölfar þess að Ragnhildur sagði hug sinn. Þau segja samstarfið hafa gengið vel á meðan á tökum stóð. Hins vegar hafi Ragnhildur viljað að ákveðin atriði kæmu fyrir í myndinni sem þau greindi á um.
„Viðfangsefni í heimildarmynd hefur ekki ritstjórnarlegt vald. Ragnheiður vildi að við tækjum viðtal við fleiri en við komum ekki öllu fyrir í myndinni. Myndin er ekki óhliðholl Ragnheiði. Ég ber mikla virðingu fyrir baráttu Ragnheiðar,“ segir Hrafnhildur fyrir hönd þeirra Barða.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.