Forsendur byggist á loftinu einu saman

Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir undarlegt að málið hafi verið …
Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir undarlegt að málið hafi verið sett í aðra umræðu þrátt fyrir að ákveðin gögn lægju ekki fyrir. mbl.is/Eyþór

Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir vinnubrögð ríkisstjórnarinnar við afgreiðslu veiðigjaldafrumvarpsins með ólíkindum.

Kalla eftir forsendugögnum breytinga

„Við höfum kallað eftir því nokkuð lengi að fá að sjá þau gögn sem eru forsenda þess að frumvarpinu og forsendum þess var breytt, en einhverra hluta vegna höfum við ekki fengið að glöggva okkur á þeim í marga daga.“

Undarlegt sé að málið hafi verið sett í aðra umræðu þrátt fyrir að þessi gögn lægju ekki fyrir en sú umræða hófst á miðvikudaginn.

Vanda þurfi til verka

Þá hafi frumvarpið tekið gagngerum breytingum án þess að neitt áhrifamat hafi verið gert í kjölfarið né stjórnarandstaðan fengið að skoða gögnin.

„Við teljum það skyldu okkar í stjórnarandstöðu að spyrna við fótum þegar kemur að risastóru máli sem snertir alla í samfélaginu, beint eða óbeint,“ segir Hildur.

Vanda þurfi betur til verka og virða þurfi lágmarksreglur lagasetningar betur en fram til þessa hafi verið gert.

Gestir fengu ekki að koma fyrir nefnd

Hildur segir með ólíkindum hversu stutt málið hafi verið í samráðsgátt og hve mikill asi hafi verið í nefndinni.

„Ákveðnir gestir, til dæmis Skatturinn og Byggðastofnun, fengu ekki að koma fyrir nefndina,“ segir hún og bætir því við að stjórnarandstaðan hafi óskað eftir því að Skatturinn myndi endurreikna forsendur frumvarpsins.

„Við töldum þær einfaldlega ekki standast og sá grunur okkar reyndist réttur,“ segir hún. Stjórnarandstaðan hafi lengi vel ekki fengið að sjá þau gögn sem leiðréttingin byggi á.

„Við fengum þó upplýsingar í dag sem við erum að skoða en enn er ákveðnum gagnabeiðnum okkar ósvarað,“ segir hún.

Makrílverð grafi undan forsendum frumvarpsins

Hildur segir nýtilkomnar upplýsingar um verðlag á makríl grafa enn undan forsendum frumvarpsins.

„Íslenskur makríll er á helmingi lægra verði en sá norski, en samt átti réttlæti frumvarpsins að felast í þeirri verðlagningu,“ segir hún og bætir því við að þeirri verðlagningu hafi út í bláinn verið veittur afsláttur af því meinta réttlæti – það nái ekki viðmiðum norska verðsins.

Þetta sé enn ein staðfesting á því að forsendur frumvarpsins hafi verið byggðar á loftinu einu saman.

„Þetta er löngu orðin hringavitleysa sem er ekki boðleg sem forsendur löggjafar í landinu,“ segir hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert