Samfélagsmiðlar íslensks stjórnmálafólks eru alltaf undir smásjá og því sem þar fer fram gert skil með reglubundnum og skemmtilegum hætti í Spursmálum. Yfirferðina má sjá í meðfylgjandi myndskeiði eða í rituðu máli hér að neðan.
Þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga fór fram með pompi og prakt víða um land í vikunni og var sko öllu tjaldað til! Peysufötunum og palestínska fánanum - hæ hó jibbí jei segir maður nú bara. Þjóðbúningaþemað var allsráðandi hjá þessum örfáu hræðum sem sýndu sig og sáu aðra við hátíðarhöldin - metnaðurinn í fyrrirúmi, og geta þeir sem ekki mættu bara átt það við sína samvisku og sinn Guð að vera föðurlandssvikararnir sem þeir eru og ekki orð um það meir.
Þær Holy-T og K-Frost virtust sjúklega pepp í hið rammíslenska 17. júní stuð á Austurvelli eins og það gerist best og ekki kvörtuðu þær undan suðvestan sex metrum á sekúndu með súld og asahláku á köflum. Ónei, þær tóku þetta strangheiðarlega 17. júní veður bara beint á kassann og mættu án yfirhafna. Íslenskt já takk! Svo voru þarna ferðamenn á svæðinu sem héldu að þær væru mæðgur. Það meikar ekkert eðlilega mikinn sens. Báðar með hárið klippt í fláa og nú eru allir útlendingar sem hingað koma til lands farnir að halda að það sé eitthvað séríslenskt tískufyrirbrigði.
Togga Gunn skartaði að sjálfsögðu öllum skrúðanum á 17. júní og var algjörlega „stunning“ þegar hún tók á móti einhverjum skrilljón sendiherrum hvaðanæva úr heiminum á þessum dýrmæta drottins degi. Elsku Togga, hún vinnur alla daga, allan sólarhringinn, allan ársins hring. Sanníslenski metorðastiginn - það klifrar hann enginn hærra en Togga okkar.
Íslenskasti Íslendingurinn Halla Hrund tók 17. júní vikuna alla leið og startaði henni á því að fara í sauðburð suður í sveit ásamt afkvæmum sínum tveimur. Svo létu mæðgurnar sig ekki vanta á 17. júní stuð þar sem haldið var í hefðirnar; sykursætt candyfloss í einni og íslenski fáninn í hinni. Allt eftir uppskriftinni.
Áslaug Arna fagnaði þjóðhátíðardeginum hátíðlega ásamt góðum vinkonum sínum og klæddist þjóðbúningi ömmu sinnar og nöfnu í tilefni dagsins og svona rétt áður en hún gerist sterabjúgaður Kani. Það er víst alþekkt hjá þeim sem fara utan í nám, sérstaklega hjá þeim sem fara í Trömparalandið, því þar er ekkert verið að spara sterasprauturnar í hvers konar matvælum. Og þar í landi er heldur engin þyngdarstjórnarlögga eins og Diljá Mist. Ég meina það, við söknum þín strax elsku Slauga. Þetta ár verður lengi að líða!
Sanna var svo sannarlega stórglæsileg í sinni þjóðlegu múnderingu á 17. júní og minnti landsmenn á afraksturinn sem þjóðin hefur náð frá stofnun lýðveldisins. Æ, hún er alltaf svo hugljúf og viðkunnanleg hún Sanna.
Liðið í borginni var líka í fullum skrúða. Eða sko allir nema Helga sem var að vanhelga hefðirnar með því að mæta ekki í upphlut. Við fyrirgefum henni það auðvitað, bara af því að hún er svo mikið krútt.
Sumir segja að ekkert sé meira djúsí en reiðar konur. Það má vel vera en púlsinn á okkar ástsælu Ingu Sæland var á hápunkti líkt og vanalega á samfélagsmiðlunum í vikunni og svo virðist vera sem hún sé farin að finna reiði sinni farveg í beinni útsendingu á Facebook. Þetta er ekki Fóstbræðra skets, svo því sé nú haldið til haga. Flott hjá henni að nýta sér þennan fídus. Hann er jú til þess gerður að fólk noti hann er það ekki?
Virðulegi forseti - hér með legg ég fram tillögu þess efnis að fólki sem komið er yfir miðjan aldur verði settar einhvers konar skorður á alnetinu og þá einna helst á samfélagsmiðlum. Legg ég til að internettenging fólks á vissu aldursbili verði rofin á ákveðnum tímapunktum þegar vissar miðlunarleiðir eru í notkun til að sporna við að alls kyns tjón geti hljótist af. Þetta tel ég vera brýnt hagsmunamál þjóðarinnar. „Thank me later“.
Já, hér má svo sjá raunverulegan Fóstbræðra skets þar sem ÍR-ingurinn Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson eru með lifandi uppstand algerlega áreynslulaust.
Þessir þingmenn sem við eigum eru augljóslega ekki að yngjast og öðlast hugtakið að vera miðaldra allt aðra merkingu þegar menn eru farnir að þurfa lesgleraugu og tæknin aðeins farin að vefjast fyrir. Simmi Dabbi tekur sig samt vel út með brillur. Lúkkar aðeins greindari fyrir vikið.
Það sem þótti fréttnæmast í vikunni er það að orkumálamaðurinn Jey Pí virðist hafa greitt á sér lubbann með Wet brush-bursta af bestu gerð! Hann var meira að segja betur greiddur en K-Frost. Allt annað að sjá hann svona óútúrveðraðan. Hann er óþekkjanlegur! Það er líka búið að vera svo stillt veður. Hann þarf bara að greiða sér sirka einu sinni í viku núna. Eða bara jafnoft og hann þarf að hlaða Tesluna sína.
Snúlli Másson pósaði næstum því eins og frelsisstyttan á þjóðhátíðardaginn þar sem hann skartaði klikkaðslega flottri derhúfu. Þessi mynd þurfti bara að fá að vera með. Ekki er selfíkóngurinn Pawel Bartoszek að standa sig.
Ísdrottninginn tók til hendinni og þreif allt hátt og lágt í Valhöll í vikunni. Löngu kominn tími til að þrífa burt allt DNA-ið af Bjarna Ben og fleirum úr húsinu. Í tiltektar brjálæðinu lagði hún það til að karlmenn sem hyggjast nota salernið í Valhöll mígi sitjandi hér eftir. Hún er ekki alveg að nenna að þrífa upp hland eftir flokksbræður sína. Skil hana vel.
Sveitadurgurinn Sigurður Ingi kenndi okkur söguna um býfluguna og blómið á Facebook á dögunum. Eins og sést leggur hann allt í sölurnar þessa dagana til að fjölga framsóknarmönnum… Enda ekki vanþörf á, fylgið gjörsamlega botnfrosið.
Ástareyjan hóf göngu sína í beinu streymi á vef Alþingis í vikunni þar sem nýjar ástir tóku að myndast í gegnum umræðu á bókun 35 - ótrúlegt hvað margir þokkasveinar og glysgyðjur fella hugi saman í gegnum blaður 35. Ekkert eðlilega heitt mál.