Gular viðvaranir taka gildi uppúr hádegi

Varasamar aðstæður geta skapast í dag fyrir ökutæki sem taka …
Varasamar aðstæður geta skapast í dag fyrir ökutæki sem taka mikinn vind og ökutæki með aftanívagna. mbl.is/Sigurður Bogi

Veðurstofan hefur gefið út gular veðurviðvaranir á Suður- og Suðausturlandi vegna hvassviðris, sem taka gildi klukkan 13 í dag og stendur til miðnættis.

Skil nálgast landið úr suðri og gert er ráð fyrir hvössum eða allhvössum vindi, 15 til 20 m/s undir Eyjafjöllum, í kringum Öræfajökul og í Mýrdalnum. Varasamar aðstæður geta skapast fyrir vegfarendur með aftanívagna á svæðinu, sem og ökutæki sem taka mikinn vind.

Skýjað verður með köflum á landinu í dag og að mestu þurrt framan af, en upp úr hádegi byrjar að rigna sunnanlands. Færist úrkomusvæðið svo norður yfir landi og í kvöld verður væta í flestum landshlutum.

Hiti verður á bilinu 8 til 17 stig, hlýjast norðan- og vestanlands.

Á morgun er útlit fyrir norðaustan 5 til 13 m/s, en hvassast verður á Vestfjörðum og við suðausturströndina. Rigning með köflum á austanverðu landinu en skúrir á vesturhlutanum. Hiti frá 5 stigum við austurströndina upp í 16 stig norðvestanlands.


Veðurhorfur næstu daga:

Á sunnudag:

Norðaustan 3-8 m/s, en 8-13 við norður- og suðausturströndina. Dálítil rigning eða súld, en stöku skúr vestantil. Hiti frá 7 stigum við norðausturströndina, upp í 16 stig á Suðvesturlandi.

 

Á mánudag:

Norðaustan 3-8 m/s, en 8-13 við norður- og austurströndina. Rigning eða súld, en dálitlar skúrir sunnan- og vestanlands. Hiti 6 til 14 stig, hlýjast á Vesturlandi.

 

Á þriðjudag:

Austlæg eða breytileg átt og væta af og til, einkum sunnan- og vestanlands. Hiti 6 til 12 stig.

 

Á miðvikudag:

Norðaustlæg átt og dálítil rigning eða súld, en skýjað með köflum og þurrt að kalla norðantil. Hiti 7 til 15 stig, svalast við austurströndina.

 

Á fimmtudag:

Austan- og norðaustanátt og rigning með köflum, en bætir í úrkomu er líður á daginn. Hiti breytist lítið.

 

Á föstudag:

Útlit fyrir ákveðna norðaustanátt með rigningu, en úrkomulítið suðvestanlands.

Veður á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert