Samverkandi þættir skila sér í háu verðlagi á mat og drykk á Íslandi í samanburði við aðildarríki Evrópusambandsins. Meðal þátta sem hafa áhrif er mikill kaupmáttur, hærri laun, fákeppni á markaði, kostnaður íslensku krónunnar og háir verndartollar á vörur.
Þetta segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, í samtali við mbl.is.
Greint var frá því í gær að verðlag á mat og drykk á Íslandi sé að jafnaði 44% hærra á Íslandi í samanburði við aðildarríki ESB. Þetta kom fram í talnaefni Hagstofunnar en þar kom jafnframt fram að einstaklingsbundin neysla á mann hér á landi hafi verið 16% hærri í fyrra í samanburði við neyslu í aðildarríkjum ESB.
„Þetta kemur því miður ekki á óvart. Við höfum verið að keppa um efsta sæti í verðlagi við Noreg og Sviss í áraraðir. Við skiptumst á að deila efstu þremur sætunum,“ segir Breki.
Þegar það kemur að íslensku krónunni segir Breki að hún hafi áhrif á verðlagið einkum vegna þess að það reynist kostnaðarsamt að halda henni uppi, sem skili sér í hærri fjármagnskostnaði. Segir hann jafnframt að af Evrópuríkjunum sé fjármagnskostnaður einna hæstur á Íslandi.
„Þegar allt þetta kemur saman skilar það sér í háu verðlagi. Svo er alltaf það gamla góða og það er fákeppni á markaði og erfitt fyrir Íslendinga að skipta einum matvælaframleiðenda út fyrir annan,“ segir Breki.
Spurður hvort hann sjái einhver merki um það að verðlag á Íslandi muni breytast á næstu árum og verða þá frekar í takt við önnur aðildarríki ESB segist Breki vera bjartsýnn ef ákveðnir hlutir breytist og bendir hann á umræðuna um búvörulögin í því samhengi.
„Ef matvælaframleiðsla á Íslandi á að vera undanþegin samkeppnislögum, eins og er núna og var samþykkt á síðasta þingi, mun þetta örugglega vera svona áfram. Við munum ekki búa við lágt verðlag, ekki búa við keppni um það að búa til matvöru á sem hagkvæmastan hátt.
En ef við eflum samkeppni og eflum samtalið milli framleiðenda og neytenda en etjum þeim ekki saman eins og tíðkast hefur síðustu ár þá er ég bjartsýnni,“ segir Breki. Tekur hann fram að hann telji mikilvægt að halda áfram að styrkja íslenskan landbúnað en að það þurfi að gera á annan hátt.