Héraðsdómur Reykjaness hefur staðfest gæsluvarðhald yfir manni sem grunaður er um alvarlega líkamsárás í Reykjanesbæ í gærkvöldi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni en ekki er tekið fram hversu langt gæsluvarðhald hafi verið farið fram á.
Í tilkynningunni segir að ástand þess er ráðist var á sé stöðugt en alvarlegt. Rannsókn málsins miði vel áfram en ekki verða veittar frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.
Greint var frá því fyrr í dag að einn hefði verið fluttur til Reykjavíkur á sjúkrahús með alvarlega stunguáverka eftir líkamsárás í Reykjanesbæ.
Lögreglunni barst tilkynning um málið rúmlega klukkan tíu í gærkvöldi og hóf strax leit að meintum árásarmanni. Viðkomandi fannst á höfuðborgarsvæðinu laust eftir miðnætti.