Herdís Björk Brynjarsdóttir, teymisstjóri markaðseftirlits hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, segir fregnir af útbrotum barns vegna vöru frá Temu ekki koma á óvart.
HMS standi nú í úttekt á lögmæti vara frá slíkum netsölutorgum og hvetji neytendur til þess að tilkynna endursölu á vörum frá Temu eða Shein á Íslandi á voruvaktin.is.
Ríkisútvarpið greindi frá því í gærmorgun að fimm ára barn hefði endað á Barnaspítalanum eftir að hafa notað spöng frá Temu í nokkrar klukkustundir, en Herdís segir það ekki einsdæmi.
„Maður er auðvitað svolítið sleginn þegar maður heyrir af svona atvikum nálægt manni en þetta er samt ekkert sem kemur okkur á óvart,“ segir Herdís. Önnur sambærileg dæmi hafi komið upp víða.
„Í Bretlandi var til að mynda stelpa sem brann töluvert mikið á handlegg eftir að hafa notað naglalím sem var keypt af þessum síðum, líklega Temu,“ segir hún.
Þá hafi hún heyrt af skartgripum með háu innihaldi málma á borð við blý og kadmíum, barnafötum með skaðlegum plastefnum og formaldehýði í fatnaði.
Herdís segir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafa takmarkaða getu til þess að sporna við flæði þessara vara inn í landið.
Stofnunin geti ekki gripið inn í kaup einstaklinga á þessum síðum – heimildir stofnunarinnar til að beita réttarúrræðum takmarkist við að vörurnar séu seldar í atvinnuskyni.
Hafið þið orðið vör við endursölu á vörum af hendi íslenskra aðila?
„Við höfum séð umræður á samfélagsmiðlum um að nákvæmlega sömu vörur og hægt sé að kaupa á þessum netsölutorgum séu seldar í verslunum hérlendis,“ segir Herdís, en stofnuninni hafi ekki borist neinar ábendingar sem beinlínis varði endursölu.
Erfitt sé að grípa til aðgerða vegna þess að nöfn þeirra verslana sem neytendur gruni að stundi slíka endursölu séu ekki tilgreind.
„Við myndum auðvitað vilja fá miklu fleiri ábendingar,“ segir Herdís og bætir því við að neytendur geti skilað ábendingum á vefsíðunni voruvaktin.is ef grunur leiki á um endursölu.
„Við getum ekkert gert gagnvart Temu og Shein að svo stöddu, til dæmis vegna þess að við erum hvorki í Evrópusambandinu né búin að innleiða reglugerðir sem myndu renna sterkari stoðum undir okkar heimildir,“ segir hún.
Herdís segir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um þessar mundir standa í úttekt á lögmæti þeirra merkinga sem Temu og önnur stór netsölutorg hafa utan á sínum vörum.
„Við höfum pantað inn vörur frá Temu í þeim tilgangi að skoða hvort þær séu löglega markaðssettar með tilliti til þess hvort það sé einhver aðili innan Evrópu sem ber ábyrgð á þeim,“ segir hún.
„Úttektinni er ekki lokið, en okkur sýnist þessi stóru netsölutorg vera farin að kynna sér forkröfur landa um merkingar,“ segir hún. Þau merki pakkana með öllum nauðsynlegum merkingum, en oft sé ekkert á bak við þær merkingar.
Hún segir netsölutorgin til að mynda farin að merkja pakkana ábyrgðaraðila fyrir markaðssetningunni sem þeir kalla „EU representative,“ en við nánari athugun sé raunin sú í flestum tilfellum að engin manneskja sé á bak við slíkar merkingar.
Þannig fylgja fyrirtækin lögum og reglum í orði, en ekki á borði að sögn Herdísar.