Stuðlar oft eina úrræðið þó það henti ekki

Börn sem ekki glíma við fíknivanda hafa verið neyðarvistuð á …
Börn sem ekki glíma við fíknivanda hafa verið neyðarvistuð á Stuðlum. Samsett mynd/Karítas/Colourbox

Vegna skorts á úrræðum fyrir börn með fjölþættan vanda hefur stundum þurft að grípa til úrræða sem ekki eiga við, meðal annars til að tryggja öryggi barnanna og annarra og vegna síundurtekinna stroktilrauna. 

Í flestum tilvikum hefur verið notast við neyðarvistun meðferðarheimilisins Stuðla, þrátt fyrir að börnin glími ekki við fíkniefnavanda eða falli að þeim markhópi sem úrræðið er fyrir. Þetta gerir það að verkum að þau fá ekki sérhæfða þjónustu við sitt hæfi.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu sérfræðingateymis um málefni barna með fjölþættan vanda, sem birt var í maí síðastliðnum. Í skýrslunni er farið yfir tölulegar upplýsingar um þau börn og ungmenni sem teymið fjallaði um á árunum 2021 til 2023, en alls var fjallað um málefni 58 barna á tímabilinu.

Sér ekki neitt breytast á næstunni

Er þá oft um að ræða börn með alvarlegan hegðunarvanda eða geðrænan vanda sem jafnvel eru talin í geðrofi og beita fólk í kringum sig ofbeldi. Ef foreldrar treysta sér ekki til að hafa börnin heima er yfirleitt enginn annar staður en neyðarvistun sem getur tekið á móti þeim í slíku ástandi, að sögn Þyríar Höllu Steingrímsdóttur, skrifstofustjóra Barnaverndar Reykjavíkur. Flestar tilvísanir koma til teymisins frá barnaverndarþjónustunni.

Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala fara börn sem hafa verið greind með geðrænan vanda þó alltaf inn á Barna- og unglingageðdeild Landspítala (BUGL) eða inn á geðdeild ef fullt er á BUGL.

„Staðan hefur verið mjög erfið og þung til lengri tíma og það er mjög slæmt að búa við það í öllum þeim málum er varða unglingana okkar, sérstaklega. Þessi börn með fjölþættan vanda eru að meirihluta stálpaðir krakkar. Það er þá sem vandinn kemur fram og þá verður hann enn fjölþættari af því það bætist við neysla og fleira, og það að hafa ekkert meðferðarúrræði er mjög bagalegt, vægast sagt. Það er vont fyrir þessa krakka og það er vont fyrir kerfið. Það er vont fyrir þá sem vinna inni í kerfinu og eru að reyna að hjálpa þessum börnum,“ segir Þyrí.

Hún hefur starfað hjá barnaverndinni í eitt og hálft ár og segir hún stöðuna hafa verið mjög þunga allan þann tíma. Sérstaklega eftir að meðferðarheimilinu Lækjarbakka var lokað í apríl á síðasta ári.

„Staðan hefur verið erfið þann tíma sem ég hef verið hérna og því miður er ég ekki að sjá fyrir mér að neitt breytist alveg á næstunni,“ segir Þyrí.

„Meðferðarúrræðin fyrir börn með fjölþættan vanda sem ríkið á að skaffa, eru um 10 til 15 pláss, fyrir utan neyðarvistun.“ 

Vísar Þyrí þar til Stuðla, Blönduhlíðar á Vogi og Bjargeyjar í Eyjafirði. Hópurinn sem þarf á einhvers konar vistun og þjónustu utan heimilis telur hins vegar um 120 til 130 börn.

Þyrí Halla Steingrímsdóttir er skrifstofustjóri Barnaverndar Reykjavíkur.
Þyrí Halla Steingrímsdóttir er skrifstofustjóri Barnaverndar Reykjavíkur.

Skortur á fjármagni og fagfólki

Um er að ræða mjög ólíka hópa barna, með ólíkar þarfir, sem vistaðir hafa verið saman á sömu heimilum.

„Það er mjög slæmt að það sé ekki hægt að aðskilja þennan hóp.“

Þyrí segir erfitt að segja til um langtímaáhrifin af þessu ástandi en það sé ljóst að það sé ekki tækt að hafa þetta svona. 

Í skýrslu sérfræðingateymisins segir að rík þörf sé á úrræðum þar sem börn með fjölþættan vanda geti búið til lengri eða skemmri tíma. Umönnunarþörf ákveðins hóps barna sé það umfangsmikil að ekki hafi verið hægt að mæta þeim nægilega vel heima fyrir með úrræðum sem ríki og sveitarfélög búi yfir.

Skortur virðist vera á fjármagni og fagfólki til að sinna þjónustu inni á heimilum barna og dæmi séu um að grípa hafi þurft til vistunar utan heimilis án þess að úrræðum sem hefðu haft í för með sér töluvert minna inngrip inn í aðstæður fjölskyldna hafi verið beitt.

Lítið áunnist frá árinu 2013

Frá því vandi þessara barna var ávarpaður árið 2013 í skýrslu nefndar sem hafði það verkefni að samhæfa þjónustu ríkis og sveitarfélaga með alvarlegar þroska- og geðraskanir, hefur samkvæmt niðurstöðum skýrslu sérfræðingateymisins nú, lítið áunnist í að bæta þjónustu við umræddan hóp barna og byggja upp úrræði af hálfu ríkis og sveitarfélaga. Fyrir vikið hefur verið notast við einkaúrræði með tilheyrandi kostnaði sem að mestu leyti hefur lent á sveitarfélögum.

Vísað er til annarrar skýrslu sem kom út haustið 2023 um fyrirkomulag þjónustu við börn með fjölþættan vanda þar sem fram komu fram þrettán tillögur að úrræðum sem talið var mikilvægt að ráðast í að koma á fót. Er þá um að ræða fjölbreytt úrræði fyrir börn sem glíma við ólíkan vanda. Ekkert þeirra hefur hins vegar enn litið dagsins ljós.

Í mars á þessu ári var skrifað undir samkomulag sem felur í sér að ríkið tekur að sér framkvæmd og ber ábyrgð á fjármögnun sérhæfðrar þjónustu við börn með fjölþættan vanda sem búsett eru utan heimilis. Tekur það gildi á næsta ári. Enn er þó óvíst hverju þær breytingar skila varðandi úrræði fyrir þennan hóp barna.

Börnin oft orðið fyrir vanrækslu eða ofbeldi

Sérfræðingateymið hefur það hlutverk að veita sveitarfélögum mat á þjónustuþörf og viðeigandi þjónustu og leggja mat á hvort þjónusta við barn á heimili fjölskyldu þess eða öðru heimili í nærsamfélagi sé fullreynd og þörf sé á vistun utan heimilis. Tilvísanir koma aðallega frá barnaverndaryfirvöldum.

Engin formleg skilgreining er til á því hvað felst í fjölþættum vanda barna og ungmenna, en gjarnan er um að ræða umfangsmikla erfiðleika; þroska-, geð- og hegðunarraskanir. Vandi sumra barnanna er þó tilkominn vegna vanrækslu og skertra tengsla í frumbernsku. Oft eiga þessi börn erfitt uppdráttar í skóla og sum leiðast út í fíkniefnaneyslu

Af þeim 58 málum sem sérfræðingateymið fjallaði um á árunum 2021 til 2023 glímdi þó innan við eitt prósent við fíkniefnavanda.

Drengir voru í meirihluta þeirra barna sem vísað var til teymisins, eða 76 prósent, en börnin voru á aldrinum 9 til 17 ára, flest af íslenskum uppruna.

Börnin voru flest með flókin frávik í taugaþroska oftast með þrjár greiningar eða fleiri. Langflest voru greind með ADHD, eða 72 prósent, og á einhverfurófi, eða 71 prósent. 33 barnanna höfðu sætt vanrækslu eða verið beitt ofbeldi af einhverju tagi.

Þá höfðu 76 prósent barnanna beitt annað fólk ofbeldi af einhverju tagi, líkamlegu ofbeldi í langflestum tilfellum. Um 36 prósent barnanna höfðu stundað sjálfskaða af einhverju tagi.

Um 55 prósent barnanna voru komin í einhvers konar búsetu utan heimilis þegar tilvísun kom til teymisins.

Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum frá Landspítalanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert