Gengur í kringum Vestfirði fyrir Sólheima

Kristján Atli er á fjórða degi Vestfjarðargöngu sinnar.
Kristján Atli er á fjórða degi Vestfjarðargöngu sinnar. Samsett mynd/Aðsend

Kristján Atli Sævarsson, 31 árs gamall göngugarpur frá Sólheimum, gengur nú í kringum Vestfirði.

Þetta gerir hann að fyrirmynd Reynis Péturs Steinunnarsonar í því skyni að safna áheitum fyrir nýjum leirbrennsluofni á Sólheimum.

Hægt er að fylgjast með ferðalagi Kristjáns Atla á Facebook og Instagram og heita á hann þar. 

Tveggja ára undirbúningur

„Ég tek hring í kringum Vestfirðina; byrja á Hólmavík og enda á Hólmavík,“ segir Kristján Atli í samtali við mbl.is.

Honum miðar vel áfram á göngunni og hefur enn sem komið er náð að ganga rúmlega 40 kílómetra á dag.

„Ég er búinn að sjá mikla fallega vestfirska náttúru. Erfiðasti kaflinn hingað til hefur verið Ódrjúgháls,“ segir hann, en Kristján sat á efsta tindi hálsins og hvíldi sig þegar blaðamaður náði í hann.

Kristján hefur verið að æfa sig fyrir gönguna í rúm tvö ár. „Ég ákvað ekki að fara á Vestfirðina í fyrstu, heldur langaði mig til að ganga sömu leið og hetjan mín, hann Reynir Pétur,“ segir hann.

Klárar hringinn

Kristján og Reynir Pétur hittust sumarið 2013 og þá gaf Reynir Kristjáni DVD-disk um Íslandsgöngu sína árið 1985 þar sem hann gekk hringveginn allan – að undanskildum Vestfjörðum.

Í ár eru 40 ár frá því að Reynir Pétur …
Í ár eru 40 ár frá því að Reynir Pétur Steinunnarson gekk umhverfis Ísland. mbl.is/Safn

„Fyrst ætlaði ég að ganga hringinn en svo stakk mamma upp á því að ganga í kringum Vestfirðina vegna þess að Reynir Pétur gekk þá ekki,“ segir Kristján.

Þannig mætti segja að hann sé að klára hringinn sem Reynir Pétur gekk fyrir 40 árum.

Reynir Pétur hafi sjálfur komist svo að orði að hann hafi labbað búkinn á landinu, en Kristján ætli að labba hausinn.

Gengur fyrir nýjan leirbrennsluofn

Kristján hefur verið að búa til rjúpnastyttur, eða „doppast“ eins og hann kallar það, í þau tíu ár sem hann hefur búið á Sólheimum. Rjúpan ber heitið Doppa og hefur ítrekað selst upp í öllum sínum ólíku myndum.

Til þess að búa hana til hefur Kristján notast við leirbrennsluofninn á Sólheimum en sá ofn bilaði fyrir nokkru að sögn Kristjáns.

Rjúpan Doppa er höfundarverk Kristjáns Atla.
Rjúpan Doppa er höfundarverk Kristjáns Atla. Ljósmynd/Aðsend

„Leirbrennsluofninn var orðinn svo gamall að hann var farinn að bila í lokin þannig þau neyddust til að láta hann fara,“ segir Kristján og bætir því við að margir fleiri hafi notað ofninn.

Hægt er að heita á Kristján Atla með bankamillifærslum á kennitöluna 120194-3219 og reikningsnúmerið 0123-15-207234.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert