Verðmunur á bensíni og dísil hjá Olís og ÓB á Selfossi, þar sem aðeins um 50 metrar eru á milli stöðvanna, hefur vakið athygli. 31 króna mismunur er á verði lítra af bensíni og 25 kr. á dísil samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Olís.
Ingunn Svala Leifsdóttir, framkvæmdastjóri Olís, segir í skriflegu svari til mbl.is að verðlagning eldsneytis hjá Olís og ÓB byggist á mörgum þáttum, svo sem þjónustustigi, staðsetningu, dreifingarkostnaði, seldu magni og samkeppni á hverjum stað.
Hún bendir á að þjónustustöðvar Olís bjóði mun meiri þjónustu, til dæmis afgreiðslu við dælur, verslun, salerni, matvælaþjónustu og þjónustu við ökutæki, sem endurspeglist í verðinu.
Sjálfsafgreiðslustöðvar ÓB séu hins vegar hugsaðar sem hagkvæmur kostur þar sem áhersla er á hraða, einfaldleika og lægra verð. Þannig geti viðskiptavinir valið þjónustu eftir eigin þörfum.
Spurt var út í verðmuninn, til dæmis hvers vegna bensínverð á ÓB á Eyrarbakka er hærra en á ÓB á Selfossi þar sem um 15 kílómetrar eru á milli stöðvanna en lítri af bensíni kostar þar 313 kr., segir Ingunn að margir þættir ráði verðinu á hverjum stað og að verð sé endurskoðuð reglulega, oft vikulega, af sérfræðingum Olís í dreifingu og markaðsmálum.
Staðsetning innan sveitarfélags og staðbundin samkeppni hafi áhrif á verðlagningu. Ingunn segir skiljanlegt að mismunur á stuttri vegalengd geti vakið spurningar en undirstrikar að markmið Olís sé að tryggja fjölbreytt val og samkeppnishæft verð um allt land.
Þá nefnir hún að verð á dælu sé oft hámarksverð. Raunverulegt verð viðskiptavina geti verið lægra ef þeir nýta sér afsláttarkjör í gegnum Olís appið eða dælulykla. Ingunn segir að fyrirtækið leggi áherslu á að verðlauna trygga viðskiptavini með betri kjörum.
Að lokum kemur fram að Ingunn telji mikilvægt að útskýra vel þann verðmun sem er á milli þjónustustöðva og sjálfsafgreiðslustöðva svo almenningur skilji betur ástæður hans.