Fimm írskir lögreglufulltrúar eru komnir til landsins í því skyni að upplýsa mál Jóns Þrastar Jónssonar sem hvarf á Írlandi snemma árs 2019. Lögreglan tekur skýrslu af 45 einstaklingum í vikunni.
Rannsókn málsins miðast fyrst og fremst af skýrslutökum vikunnar, en þó kann að vera að aðrar aðgerðir fari fram, segir Eiríkur Valberg, fulltrúi í rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Síðast er vitað um ferðir Jóns Þrastar í Dyflinni á Írlandi árið 2019, þar sem hann var staddur á alþjóðlegu pókermóti.
Allir þeir sem tekin verður skýrsla af munu njóta réttarstöðu vitnis í málinu, segir Eiríkur en hann getur ekki tjáð fyrir um hvernig eintaklingarnir tengjast rannsókninni.
Skýrslutökurnar fara fram í samstarfi írsku og íslensku lögreglunnar. Íslenska lögreglan sér þó um framkvæmd og ber ábyrgð á skýrslutökunni.
Eiríkur segir að í gegnum alla rannsóknina hafi lögregla fengið tíðar ábendingar og vísbendingar og unnið hefur verið út frá því.
„Við höfum fengið nýlegar ábendingar, en við vonum að þessar aðgerðir muni skýra málið frekar,“ segir Eiríkur.