Anna Kristín Sigurðardóttir, forstöðumaður Vesturbæjarlaugar, segist vona að laugin geti opnað fyrir 15. júlí.
Verkið hafi reynst stærra en gert var ráð fyrir í fyrstu, en samhliða verkinu sé unnið að yfirhalningu á byggingunni allri.
„Töfin er aðallega við framkvæmdir á laugarkarinu sem standa enn yfir,“ segir Anna Kristín sem ræddi við blaðamann í Vesturbæjarlaug fyrr í dag.
Búið er að mála barnalaugina upp á nýtt, en nakinn steypubotn blasir við í djúpu lauginni.
Verkið hafi reynst stærra en iðnaðarmenn áttuðu sig á í fyrstu. „Þeir enduðu á því að þurfa að slípa af fimmtíu ára gömul uppsöfnuð málningarlög,“ segir Anna og bætir því við að laugin hafi verið máluð á þriggja til fjögurra ára fresti, eða um fimmtán sinnum, á þeim tíma.
„Svo eru múrviðgerðirnar umfangsmiklar, það þarf að steypa laugina og laga sprungur og þess háttar,“ segir Anna.
Framkvæmdirnar einskorðast ekki við laugarsvæðið að sögn Önnu, heldur er verið að nýta tækifærið og taka alla bygginguna í gegn.
„Við vorum að klára að mála veggina í móttökunni, það er verið að pússa til bekkina í inniklefunum og skipta um brotnar flísar. Við erum líka að mála þá hlið hússins að utan sem vísar að lauginni.“
Til stendur jafnframt að laga rúður og mála allt húsið að utan á næsta ári.
„Iðnaðarmennirnir eru búnir að vera hérna alla rauða daga á fullu, suma daga hefur ekki verið þverfótað fyrir þeim,“ segir Anna og hlær við.
„Svo hafa þeir verið að reyna að klára allt sem tengist uppbyggingu á nýjum sánum, en það er búið að vera ákveðið rask af þeim framkvæmdum í vetur,“ segir Anna.
Raskið hafi verið mest í niðurrifi á gömlu sánunum, en nú sé unnið að því að klára þær framkvæmdir sem truflað gætu laugargesti.
Anna kveðst vonast til þess að laugin geti opnað aftur fyrir 15. júlí, en að hún geti þó ekki lofað neinu.
„Iðnaðarmennirnir hafa sagt að þeir verði búnir í allra síðasta lagi þá, en ég bind sterkar vonir við að það gerist eitthvað fyrr,“ segir hún.
Tilkynnt verði um leið og ljóst sé hvort framkvæmdum ljúki fyrr.